Í kvöld er opinn íbúafundur í Ástjarnarkirkju um einelti og stafrænt ofbeldi. Fundurinn er haldinn í kjölfar eineltisumræðu í samfélaginu en mörgum var brugðið í október þegar greint var frá alvarlegu einelti gegn nemanda í Hraunvallaskóla, sem er í sama hverfi og kirkjan í Hafnarfirði.

„Þetta sló allt hverfið og allt samfélagið og fólk er enn að velta þessu fyrir sér. Þetta má ekki deyja í umræðunni. Þetta var vekjandi atriði allt,“ segir Bolli Pétur Bollason prestur en ákall var eftir umræðuna um að það yrði haldinn íbúafundur.

Bolli segir að allir séu velkomnir á fundinn en þar mun Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur og formaður ráðgjafarteymis í skóla- og frí­stunda­starfi hjá Reykjavíkurborg, ræða um stafrænar áskoranir og ofbeldi.

„Hún mun tala um mikilvægi þess að foreldrar og nærsamfélagið standi saman.“

Eftir erindi hennar mun vera tími fyrir umræður og fyrirspurnir að sögn Bolla en fjölmargir hafa leitað til kirkjunnar í kjölfar umræðunnar.

„Þetta er gott og rúmt húsnæði sem við höfum þannig að það er nóg pláss. Við vonumst til þess að sjá sem flesta.“