Formenn stjórnmálaflokkanna íhuga nú að setja umbætur á ákvæðum um dómsvald í stjórnarskrá í forgang en áður var fyrirhugað að breytingar á þeim kafla stjórnarskrár yrðu endurskoðaðar á næsta kjörtímabili auk kafla um Alþingi og alþingiskosningar, mannréttindi og fleira. Á fundi formanna í október átti forsætisráðherra frumkvæði að umræðu um hvort setja ætti breytingar á dómstólaákvæðum stjórnarskrárinnar í forgang og vísaði til skoðanakönnunar um stjórnarskrármál sem stjórnarráðið lét framkvæma og leiddi í ljós að almenningur setji umbættur á ákvæðum um dómsvald í mikinn forgang.

Formenn hafa hist að jafnaði einu sinni í mánuði á kjörtímabilinu og hefur eitt frumvarp verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, um umhverfisvernd og náttúruauðlindir.

„Við erum komin mjög langt með vinnu við þessi tvö ákvæði og tiltölulega vel á veg komin með ákvæði um forseta og framkvæmdarvald,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún segir hópinn nú bíða eftir að sjá niðurstöður þeirrar rökræðukönnunar sem fer fram um helgina.

Einnig hefur verið rætt um þjóðar­atkvæði og um framsal valdheimilda en sú vinna sé styttra á veg komin þótt hið síðarnefnda hafi reyndar verið rætt töluvert.

Á fundi hópsins í október var einnig rætt um drög að frumvarpi um stöðu íslenskrar tungu í stjórnarskrá og samþykkt að vísa því í opið samráð. Frumvarpið byggir á hugmynd sem kom fram í meðferð frumvarps stjórnlagaráðs á Alþingi og á fyrirmynd í ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og kveður á um að íslenska sé þjóðtunga á Íslandi og ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda.

Katrín segist stefna að því að ákvæði um þjóðtungu verði kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í kring um áramót en tillögur um breytingar á ákvæðum um forseta og framkvæmdarvald á vormánuðum.

Um elstu ákvæði stjórnarskrárinnar er að ræða sem litlum sem engum breytingum hafa tekið frá lýðveldisstofnun.

Hafa formennirnir rætt drög að frumvarpi á þremur síðustu fundum sínum en frumvarpsdrögin samdi Skúli Magnússon, dósent og héraðsdómari. Frumvarpsdrögin hafa ekki verið birt en umræður meðal formanna lúta meðal annars að því hvort auka eigi pólitískt hlutverk forseta við stjórnarmyndanir og hvort ástæða sé til að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar um ábyrgðarleysi forseta. Einnig hafa formenn rætt um mögulegar breytingar á ákvæðum um þingrof og lærdóma sem draga mætti af þróun til dæmis í Bretlandi.