Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að til greina komi að gefa lands­mönnum aðra ferðagjöf í sumar.

Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um slíkt en þar sem ferðagjöfin í fyrra virkaði vel og hafði jákvæð áhrif á hagkerfið, segir Þórdís réttast að skoða mögulegar útfærslur á nýrri ferðagjöf.

Framhaldsferðagjöfin verður rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

„Staðan er sú að það er búið að nýta um helming ferðagjafarinnar og ráðstafa um rúmlega 700 milljónum króna þannig að það eru enn um 700 milljónir sem er þá óráðstafað,“ segir Þórdís í samtali við Fréttablaðið.

Við lok síðasta árs var ákveðið að framlengja gildistíma til loka maí. Þórdís segir að það ætti ekki að vera stórmál að framlengja hann enn frekar svo ferðagjöfin gildi til loka næsta sumars en sömuleiðis skoða nýja gjöf fyrir þá sem hafa nýtt sína.

„Það kemur alveg til greina að útfæra hana frekar og nánar. Ef ferðagjöfin er ekki nýtt af öllum þá er spurning hvort það eigi að endurgera hana þannig að þeir sem hafa nýtt hana einu sinni geri það aftur,“ segir Þórdís og bætir við að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin.

„Mér finnst sjálfsagt að framlengja gildistímann þannig að hún gildi út næsta sumar og mér finnst alveg koma til greina að endurtaka leik­inn gagnvart þeim sem þegar hafa nýtt hana. Þetta virkaði, þetta hefur áhrif á fyrirtækin og hagkerfið. Fyrirtækin fóru mörg hver að bjóða ýmiss konar tilboð og slíkt,“ bætir hún við.

Þórdís segir líklegt að næsta sumar verði að miklu leyti „innanlandssumar“ þó ýmislegt eigi eftir að skýrast í þeim efnum. Breytingar á landamærunum taka gildi 1. maí en það er enn stór spurning hver umsvif erlendra ferðamanna verða.

SAXoPicture-0B2FEBF0-247507767.jpg

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

„Við vitum að meginþorri Íslendinga mun ferðast innanlands og þá finnst mér rökrétt og skynsamlegt að við leitum leiða til að vera með hvata og innspýtingu gagnvart samfélaginu í heild,“ segir Þórdís.

Spurð hvort til greina komi að víkka gjöfina þannig hún taki til fleiri fyrirtækja segir Þórdís að skoða þurfi það sérstaklega.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt en útfærslan sem við vorum með síðasta sumar virkaði vel en hún er ekki heilög. Við vitum meira um stöðu ferðaþjónustunnar og stöðu afleiddra greina. Mér finnst koma til álita að við nýtum þær upplýsingar og þá stöðu, sem er orðin meiri og önnur en síðasta sumar, til að meta það hvort við útvíkkum eitthvað gildissvið ferðagjafarinnar.“

Spurð hvort það komi til greina að hækka upphæðina í ljósi þess að rúmlega helmingur nýtti ekki fyrri gjöfina og fá þannig meira fé inn í hagkerfið segir Þórdís að reynslan af síðasta sumri verði skoðuð.

„Mér finnst í raun verkefnið að vera að nýta þá reynslu sem við höfum frá síðasta sumri bæði af útfærslunni og nýtingu á gjöfinni. Ef við getum nýtt hana til góðs þannig að framhaldsferðagjöf taki einhverjum breytingum þá er ég alveg opin fyrir því,“ segir Þórdís.