Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að þau séu upplýst um að það hafi „orðið hnökrar í framkvæmdinni“ á úrræði sem stóð fólki til boða í heimsfaraldri Covid um að taka séreign sína út án nokkurra skerðinga, en leiddi þó til þess hjá fjölmörgum öryrkjum.
Ráðuneytið hefur kallað eftir upplýsingum og skýringum um framkvæmd úrræðisins frá bæði Skattinum og Tryggingastofnun. Það kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Fjallað hefur verið um málið í Fréttablaðinu en nýlega stigu þrír lífeyrisþegar fram og lýstu því hvernig þau búa enn í dag, tveimur árum eftir úttekt, við skuld og skerðingar vegna þess að úttekt þeirra var ranglega skráð. Þá sagði framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins, Ólafur Páll Gunnarsson, að mistök hafi verið gerð við útfærslu laganna og kallaði eftir viðbrögðum stjórnvalda við þeim. Hann sagði einnig í viðtalinu að hans mati uppfylli lögin sjálf ekki, að hans mati, lágmarkskröfur um skýrleika, jafnræði og réttlæti.
Flest úrræðin í eðli sínu frávik
„Ráðuneytið getur þó ekki tekið undir sjónarmið um að lögin um úrræðið uppfylli ekki kröfur um skýrleika, jafnræði og réttlæti. Flest úrræðin sem gripið var til í tilefni af faraldrinum eru í eðli sínu frávik frá meginreglum sem almennt gilda enda er úrræðunum ætlað að aðstoða fólk og fyrirtæki í erfiðum aðstæðum,“ segir ráðuneytið í svari sínu og að öll úrræðin hafi verið kynnt rækilega opinberlega og vísa á þá aðila sem sinntu framkvæmdinni í hverju tilviki, sem eru þá vörsluaðilar séreignarsparnaðarins, bankar og lífeyrissjóðir.
„Hafi mistök orðið í skráningu við nýtingu á úrræðinu um úttekt séreignarsparnaðar er enn hægt að leiðrétta ákvörðun bóta,“ segir í svari ráðuneytisins og að samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið frá bæði Skattinum og Tryggingastofnun hafi talsvert verið um það að leiðréttingar hafi verið gerðar vegna þessa að beiðni einstaklinga.
1.672 mál stofnuð hjá Skattinum
Á fimmtudag í síðustu viku, þann 19. maí, fékk ráðuneytið þær upplýsingar frá Skattinum að 1.672 mál hefðu verið stofnuð hjá stofnuninni í tengslum við færslu á tekjum úr reit 140 í reit 143 á skattframtali en það eru reitirnir á skattframtali sem segja til um hvort að úttektin sé vegna Covid-úrræðisins eða hvort að úttektin sé hefðbundin úttekt lífeyrisþega. Almennt mega öryrkjar taka hann séreignarsparnaðinn út eins og þau sem eru orðin 60 ára. Munurinn á að taka út samkvæmt Covid-úrræði eða ekki er að Covid-úrræðinu fylgja engar skerðingar en almenna úttektin er tekjuskattskyld og hefur áhrif á ýmsar bætur.
„Upplýsingar um nýtingu hvers og eins einstaklings hafa verið forskráðar á skattframtöl einstaklinga undanfarin ár og byggist forskráningin á upplýsingum frá lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignarsparnaðar sem þeir afhenda Skattinum eftir þeim leiðum sem hann býður uppá. Svo virðist sem framkvæmdin á þessu hafi verið mismunandi hjá lífeyrissjóðum og vörsluaðilum. Vegna þess að þetta eru forskráðar upplýsingar á framtölin er líklegt að einstaklingar hafi í einhverjum tilvikum ekki áttað sig á því að úttekt sem þeir litu á sem nýtingu á Covid úrræði var af lífeyrissjóði eða vörsluaðila flokkuð sem almenn heimild í forskráningu á framtali. Þegar TR sækir svo upplýsingar í álagningu opinberra gjalda getur þetta haft áhrif á ákvörðun bóta, eins og fram hefur komið, og hefur þegar verið leiðrétt í fjölda tilvika,“ segir í svari ráðuneytisins þar sem er einnig farið ítarlega yfir þá möguleika sem eru til staðar á úttekt.
Svipað úrræði eftir hrun
Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að alls hafi 1.627 beiðnir þegar verið samþykktar og að meirihluti málanna sé vegna leiðréttra gagnaskila frá lífeyrissjóðum eða vörsluaðilum.
„Jafnframt hefur Skatturinn mælst til þess við nokkra lífeyrissjóði að þeir endurskoði sín gagnaskil vegna úttekta á séreignarsparnaði á árinu 2020. Ráðuneytið mun áfram fylgjast með framkvæmdinni á leiðréttingum á þessu.“
Bent er á það í svari ráðuneytisins að framkvæmdin á úrræðinu sé þekktari en mörg önnur úrræði sem voru í boði í covid heimsfaraldri því að eftir fjármálahrunið hafi verið gripið til sambærilegs úrræðis.