Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, telur að umræða um viðlegukant í varnarskyni við norðanverðan Finnafjörð veki spurningar um frumvarp sem hefur legið fyrir Alþingi um endurskilgreiningu á mörkum öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall. Utanríkisráðuneytið neitar að áform séu uppi af því tagi sem Fréttablaðið fjallaði um í gær.

Í þingræðu árið 2020 sagði Andrés Ingi að hugmyndir heimamanna um að byggja upp stóra höfn í Finnafirði gætu verið „baktjaldaleið til að komast í djúpa vasa hermálayfirvalda til að niðurgreiða uppbyggingu á stórskipahöfn í Finnafirði“. Viðbrögð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem þá var utanríkisráðherra, hafi verið að um „súrrealíska samsæriskenningu“ væri að ræða.

Utanríkisráðuneytið vísar því á bug að ráðuneytið hafi haft milligöngu um óformlegt erindi gagnvart sveitarstjórnaryfirvöldum á Langanesi. Heimildir Fréttablaðsins halda fram að NATO hafi áhuga á að byggja upp viðlegukant við Gunnólfsvík þar sem Landhelgisgæslan gæti haft aðstöðu. Í svari við fyrirspurn blaðsins segir utanríkisráðuneytið að engin áform eða hugmyndir séu uppi um uppbyggingu varnarmannvirkja á þessu svæði. Langanesbyggð segir einnig í tilkynningu að sveitarfélaginu hafi ekki borist erindi frá utanríkisráðuneytinu eða NATO um uppbyggingu hafnarmannvirkja eða viðlegukants í Finnafirði.

Andrés Ingi segir að vandinn við hernaðaruppbyggingu sé hve illa hún þoli lýðræðislega umræðu.

„Almenningur í landinu á heimtingu á að vita hvað sé í gangi,“ segir hann.

Andrés Ingi bendir á að ríkisstjórnin hafi sagt að fyrirhuguð útvíkkun öryggissvæðis við Gunnólfsvík sé undanþegin áhrifum um uppbyggingu varnarmannvirkja. Andrés efast um að það sé rétt. Hann vitnar meðal annars til aðmíráls í Bandaríkjaher sem árið 2020 sagði eftir heimsókn hingað til landsins að stefnan væri að koma fyrir nýju varnarfótspori á Íslandi.

„Áhuginn er þeirra. Það skiptir ekki öllu máli hvort við ræðum NATO eða Bandaríkin í þessum efnum.“

Þá bendir Andrés Ingi á að svo virðist sem frumvarpið fyrrnefnda virðist nú horfið af þingmálaskrá, að minnsta kosti um stundarsakir.

„Það er alltaf einhver huliðshjúpur yfir þessum málum. Utanríkisráðherra hefur sagt að þingið eigi að ræða meira um utanríkis- og varnarmál en alltaf komum við að luktum dyrum,“ segir Andrés Ingi og vísar til þess að ráðamenn hafi áður endurtekið þrætt fyrir áform um hernaðarlega uppbyggingu í Finnafirði.

„Það togast á ólík sjónarmið til varnarsamstarfsins í stjórnarflokkunum,“ segir Andrés Ingi, sem telur að allt sem snerti „aukna vígvæðingu á norðurslóðum, þar á meðal hugmyndir um landvarnir á Langanesi“ sé áhyggjuefni.

„Að byggja upp svona aðstöðu á Íslandi eru sprek á bál sem við viljum frekar slökkva en glæða.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra gaf ekki kost á viðtali vegna málsins.