Næstum tvö ár eru síðan Kvikmyndaskóli Íslands sótti um að fá viðurkenningu sem háskóli, en menntamálaráðuneytið hefur verið tregt til svara. Unnið er að gerð svokallaðrar gæðahandbókar innan ráðuneytisins, sem forsvarsmenn skólans segja að geti ekki haft nein áhrif á umsóknina.

Umsóknin hefur legið á borði ráðuneytisins í 22 mánuði en lítil svör borist um afgreiðsluna, annað en um gæðahandbókina. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður skólans, segir bréfum ekki svarað langtímum saman þrátt fyrir ítrekanir.

Samkvæmt lögum um háskóla á ráðherra að skipa þrjá óháða sérfræðinga í nefnd til þess að veita umsögn um viðurkenninguna. Er meðal annars litið til stjórnskipunar, hæfis starfsfólks, aðstöðu, kennslufyrirkomulags og rannsókna.

Kvikmyndaskólinn hefur lagt til við ráðuneytið að hollenska úttektarfyrirtækið EQ Arts sjái um matið, en það fyrirtæki hefur víðtæka reynslu af listaakademíum í Evrópu. Hefur tillögunni ekki verið svarað.

„Það er mikill munur fyrir þá sem sækja skólann að fá háskólagráðu, upp á störf og framtíð í faginu. Því er það mjög þýðingarmikið fyrir skólann að fá þessa viðurkenningu,“ segir Jón Steinar. „Ég hef aldrei kynnst svona framkomu í stjórnsýslunni. Það er eins og kraftar séu að verki sem gæta annarlegra hagsmuna. Embættismenn í ráðuneytinu virðast stjórna þessu og ekki að sjá að ráðherrann hafi neina stjórn á þeim.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra hefur ákveðið að Listaháskóli Íslands verði með kvikmyndanám á háskólastigi. Vaknar þá sú spurning hvort það sé að trufla umsókn Kvikmyndaskólans.

Jón Steinar segir að ákvörðun ráðherra um Listaháskólann eigi ekki að skipta neinu máli hvað umsókn Kvikmyndaskólans varðar. Með viðurkenningunni felist ekki að ríkið ábyrgist fjármögnun skólans.

Ferlið eigi ekki að vera pólitísk ákvörðun, heldur einfalt stjórnsýslumál, sambærilegt við að sækja um ökuskírteini. Sú gæðahandbók sem sé í smíðum eigi ekki stoð í lögum og sé því tilbúningur í ráðuneytinu. Skólinn uppfylli skilyrðin og ráðherra eigi að skipa þriggja manna óháða sérfræðinganefnd til að meta hann.

„Það er ekki í boði að ráðuneytið setji skilyrði eftir á sem ekki eru í samræmi við lögin,“ segir Jón Steinar.

Svör við fyrirspurnum Fréttablaðsins bárust ekki frá menntamálaráðuneytinu fyrir prentun þessa blaðs.