Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir engin töluleg gögn til eins og stendur um það hver nákvæmlega þörfin er hvað varðar fjölda starfandi lækna hér á landi nú, á næstu árum og áratugum.
Í svari við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur þingkonu Viðreisnar segir hann að nú sé unnið að því ráðuneyti hans sé unnið að því að gera umfangsmikla mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem mun hjálpa okkur við að kortleggja mönnunina í dag og þörfina til framtíðar.
„Mönnunarþörf lækna þarf að greina út frá fjölmörgum breytum. Taka þarf meðal annars tillit til breyttrar aldurssamsetningar samfélagsins, mannfjöldaþróunar, fjölda ferðamanna, fjármagns, verkefna hverrar stofnunar og skipulags vinnunnar,“ segir í svari ráðherra.
Spurður hvort að ráðherra ætli sér að fara í markvissar aðgerðir til að vinna að því að hér verði starfandi fjöldi lækna í samræmi við þörf og hverjar þær aðgerðir séu segir Willum að unnið sé að því að styrkja sérnámið, að fjölga læknanemum og að liðka eins og unnt er fyrir starfsleyfisveitingum lækna með erlenda menntun og/eða sérfræðimenntun.
„Síðan er viðvarandi verkefni að stuðla að bættu starfsumhverfi lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Við viljum að þeir læknar sem halda utan til grunnnáms eða sérnáms komi aftur til Íslands og að læknar sjái almennt hag í því að starfa á Íslandi,“ segir Willum í svari sínu.

60 nemendur árlega - vinna að því að fjölga læknanemum
Þar er enn fremur vísað til minnisblaðs sem ráðuneyti hans vann í september með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu með tillögum sem meðal annars snúa að því að brautskrá fleiri úr ákveðnum heilbrigðisgreinum við HÍ en nú er gert, þar með talið læknisfræði og að beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að fjölga læknanemum hafi verið komið á framfæri við Háskóla Íslands ásamt rökstuðningi og vinnan innan háskólans er hafin í samráði við Landspítala.
Þá er ítarlega fjallað um uppbyggingu innan læknisfræðinnar hér á landi síðustu ár og hvað sé hægt að læra á hversu löngum tíma.
Spurður hvort að hann telji ástæðu til að fjölga nemendum í læknadeild Háskóla Íslands og hvort það liggi fyrir mat um hverju marga þarf að útskrifa til að uppfylla þörf segir Willum að árlegur nemendafjöldi sé 60 og að nýliðun verði að aukast í samræmi við mannfjöldaspá.
„Fjöldi nema er í læknisfræði erlendis og með eflingu sérnáms hér á landi aukast líkur á því að þeir nemar skili sér inn í íslenskt heilbrigðiskerfi til starfa,“ segir Willum og vísar svo í þá vinnu sem er innan ráðuneytanna til að fjölga nemendum.
Vilja efla færni- og hermisetur
Þá er hann einnig spurður að því hver hans skoðun sé á því hvernig megi gera Landspítalanum kleift að taka á móti fleiri læknanemum í klínískan hluta læknanámsins segir Willum að uppbygging öflugra færni- og hermisetra sé ein þeirra leiða sem mikilvæg er í verklegri þjálfun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til þess að létta á starfsnámi innan heilbrigðisstofnana og gera það markvissara. Hann segir uppbyggingu þeirra til skoðunar.
„Auk Landspítalans gegna aðrar stofnanir og einingar mikilvægu hlutverki í þjálfun nema, bæði í læknisfræði og í öðrum greinum. Mikilvægt er að nýta alla kennslumöguleika sem hægt er, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu, á sjúkrahúsi eða á heilsugæslu eða annarri heilbrigðisstofnun eða starfsstöð sem hefur burði til kennslu,“ segir Willum og að miðlæg fjármögnun muni aðstoða við það.
Svar ráðherra er hægt að kynna sér betur hér.