Heilbrigðisráðuneytið gerir alvarlegar athugasemdir við málflutning formanns velferðarnefndar í sjónvarpsfréttum RÚV kl. 22 í gær.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að formaðurinn, Helga Vala Helgadóttir, hafi þar tjáð sig um viðkvæm málefni sem rædd voru á lokuðum nefndarfundi og varða talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara og hjúkrunarheimili sem rekin eru á vegum sveitarfélaga.

Í tilkynningunni segir: „Í þingskaparlögum er afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Heilbrigðisráðuneytið verður að geta treyst því að samskipti við velferðarnefnd byggi á heilindum, virðingu fyrir þeim málum sem þar eru til umfjöllunar og að trúnaðar sé gætt líkt og áskilið er í lögum."

Ekki kemur fram hvaða ummæli formannsins eiga að hafa brotið trúnað.

Samningaviðræður standa yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og fyrrnefndra aðila. Segir í bréfi ráðuneytisins á að ógætileg ummæli í fjölmiðlum um mál sem rædd eru í trúnaði á lokuðum fundi velferðarnefndar geti spillt fyrir þeim viðræðum.

Þá hefur Heilbrigðisráðuneytið sent formanni velferðarnefndar bréf með athugasemdum sínum og afrit af því til forseta Alþingis.

Viðloðandi samskiptavandi við Sjúkratryggingar

Helga Vala Helgadóttir sagði að samskiptavandi torvelda samninga milli Sjúkratrygginga og sveitarfélaga um resktur hjúkrunarheimila, það sé því miður ekkert einsdæmi þegar Sjúkratryggingar eru annars vegar. Fulltrúar sveitarfélaga komu fyrir velferðarnefnd í síðustu viku og Sjúkratryggingar og Heilbrigðisráðuneytið hafa gert grein fyrir sinni afstöðu. Helga Vala sagðist greina mikinn mun á afstöðu þeirra: „Það kom einnig fram að svo virðist sem einhver sveitarfélög séu að nota það fjármagn sem ætlað er í hjúkrunarheimilin í eitthvað annað, óskylt, ég hef ekki heyrt það áður. Ég held að það sé fróðlegt að spyrja sveitarfélögin hvort þetta sé rétt“, sagði Helga Vala í tíufréttum Rúv í gærkvöldi.

„Því miður virðist vera samskiptavandi milli flestra þeirra sem eru að reyna að ná samningum við Sjúkratryggingar, hvort sem um er að ræða talmeinafræðinga, sjúkraþjálfa eða rekstraraðila hjúkrunarheimila, sveitarfélaganna sem reka hjúkrunarheimili.“

Hún sagði hjúkunarheimilin vanfjármögnuð af hendi ríkisins.

TIlkynning heilbrigðisráðuneytisins

Heilbrigðisráðuneytið gerir alvarlegar athugasemdir við málflutning formanns velferðarnefndar í sjónvarpsfréttum RÚV kl. 22.00 í gær. Formaðurinn tjáði sig þar um viðkvæm málefni sem rædd voru á lokuðum nefndarfundi og varða talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara og hjúkrunarheimili sem rekin eru á vegum sveitarfélaga. Í þingskaparlögum er afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Heilbrigðisráðuneytið verður að geta treyst því að samskipti við velferðarnefnd byggi á heilindum, virðingu fyrir þeim málum sem þar eru til umfjöllunar og að trúnaðar sé gætt líkt og áskilið er í lögum. Samningaviðræður standa yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og fyrrnefndra aðila og bendir ráðuneytið á að ógætileg ummæli í fjölmiðlum um mál sem rædd eru í trúnaði á lokuðum fundi velferðarnefndar geti spillt fyrir þeim viðræðum.

Heilbrigðisráðuneytið hefur sent formanni velferðarnefndar bréf með athugasemdum sínum og afrit af því til forseta Alþingis.