Rúmlega átján hundruð manns hafa frá árinu 2015 óskað eftir því að Alþingi veitti þeim íslenskan ríkisborgararétt. Þetta kemur fram í svari Útlendingastofnunar til umboðsmanns Alþingis sem skoðar nú miklar tafir á afgreiðslu slíkra mála hjá stofnuninni.

„Ein helsta ástæða þess að málsmeðferðartími ríkisborgaraumsókna hefur dregist út hófi fram er sú mikla vinna sem hefur farið í vinnslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis,“ er vitnað í skýringar Útlendingastofnunar í bréfi umboðsmanns til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Unnar hafi verið rúmlega átján hundruð umsóknir frá 2015. Þess má geta að fæstir fá jákvætt svar.

„Útlendingastofnun tekur til gögn og gefur umsögn um allar umsóknir sem fara fyrir Alþingi ásamt því að mæta á fundi (allsherjar- og menntamálanefndar) vegna umsóknanna. Þessi vinna hefur gengið framar vinnslu almennra umsókna,“ vitnar umboðsmaður áfram til Útlendingastofnunar.

Tvær leiðir til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt

Tvær leiðir eru fyrir erlenda ríkisborgara til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Annars vegar geta þeir sótt um ríkisborgararétt eftir að hafa búið á Íslandi í tiltekinn tíma og uppfyllt tiltekin önnur skilyrði og hins vegar geta þeir sótt um að Alþingi veiti þeim ríkisborgararétt. Í seinna tilvikinu eru ekki strangar kröfur eins og í því fyrra.

Segist umboðsmaður telja rétt að upplýsa dómsmálaráðherra og ráðuneytið um tafir sem verði á veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun. „Að þessu leyti tek ég fram að skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun lúta að mestu leyti að hlutlægum atriðum sem koma fram í gögnum sem umsækjendur láta stofnuninni í té samhliða umsóknum sínum.“

Vill umboðsmaður að dómsmálaráðuneytið upplýsi hvort ráðuneytið hafi eða hyggist grípa til einhverra aðgerða til að bregðast við vandanum hjá Útlendingastofnun. „Ef svo er ekki er þess óskað að ráðuneytið skýri ástæður þess og lýsi afstöðu sinni til þess hvort það samræmist yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart stofnuninni með tilliti til almennra málahraðareglna stjórnsýsluréttarins og þeirra réttinda og hagsmuna sem eru í húfi,“ segir í bréfinu til ráðuneytisins.

Tekur umboðsmaður fram að beiðnin sé sett fram til að hægt sé að meta hvort hann þurfi að taka þessa þætti í stjórnsýslu ráðuneytisins til frumkvæðisathugunar.