Mál fanga, sem liggur alvarlega veikur á gjörgæsludeild Landspítalans, er í skoðun í dómsmálaráðuneytinu.

Fanginn var fluttur með sjúkrabíl frá fangelsinu á Hólmsheiði á Landspítalann 8. nóvember síðastliðinn og hefur legið þar þungt haldinn síðan. Honum var haldið sofandi í öndunarvél í tíu daga en hann var vakinn á miðvikudag og sýnir nú hægfara batamerki samkvæmt heimildum blaðsins.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær eru aðstandendur ósáttir við hvernig tekið var á veikindum mannsins í fangelsinu og telja fangaverði ekki hafa sinnt óskum hans um læknisaðstoð.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að nauðsynlegt væri að rannsaka málið.

Aðspurð segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að ráðuneytinu sé kunnugt um málið og að óskað hafi verið eftir upplýsingum um málið frá fangelsisyfirvöldum.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, getur ekki svarað spurningum um málefni einstakra fanga en segir hins vegar að þegar fangi óski eftir heilbrigðisþjónustu sé hún undantekningarlaust veitt.

„Ef fangi óskar eftir heilbrigðisþjónustu, þá er hún veitt. Við synjum föngum ekki um heilbrigðisþjónustu,“ segir Páll. Slík þjónusta sé undantekningarlaust veitt af heilbrigðisstarfsfólki við upphaf afplánunar. Veikist fangi í afplánun sé honum einnig undantekningarlaust veitt heilbrigðisþjónusta, hvort heldur er að frumkvæði starfsfólks fangelsisins eða að eigin ósk fanga.