Nú styttist óðum í að heil­brigðis­ráðu­neytið og fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neytið flytji í ný húsa­kynni við Síðu­múla í Reykja­vík.

Stór­hýsið við Síðu­múla 24 hýsti áður Trygginga­mið­stöðina, en á árunum fyrir hrunið voru þar höfuð­stöðvar FL-Group, fjár­festinga­fé­lags sem meðal annars var móður­fé­lag Icelandair.

Ráðu­neytin tvö hafa á undan­förnum árum lent í heil­miklum hús­næðis­hrakningum, meðal annars vegna þess að raka­skemmdir og mygla virðast hafa elt þau á röndum.

Vonandi rætist úr þegar þau komast í ný heim­kynni í Síðu­múlanum, sem á árum áður var stundum nefndur Blað-Síðu­múli í gamni vegna þess hve mörg dag­blöð höfðu þar rit­stjórnar­skrif­stofur sínar, meðal annars Vísir og Dag­blaðið sem síðar sam­einuðust undir merki DV. Í síðu­múlanum voru líka Tíminn (síðar NT) og Þjóð­viljinn og raunar flest, ef ekki öll dag­blöð landsins, önnur en Morgun­blaðið, sem var í Aðal­stræti þar til blaðið flutti í Kringluna og loks upp að Rauða­vatni.

Hús­næðið í Síðu­múla er hugsað sem lausn til bráða­birgða þar til búið verður að gera upp hús­næði fyrir ráðu­neytin við Skúla­götu 4, í Sjávar­út­vegs­húsinu sem nú er verið að gera gagn­gert upp.

Upp­haf­lega áttu ráðu­neytin að flytja í Síðu­múlann í maí síðast­liðnum. Hús­næðið var sagt henta starf­semi þeirra vel og ekki þyrfti að gera miklar breytingar. Þetta hefur dregist nú í um þrjá mánuði og enn standa yfir fram­kvæmdir í húsinu. Slíkar tafir eru ekki með öllu ó­þekktar þegar kemur að fram­kvæmdum á vegum ríkisins.

Nú er í öllu falli búið að merkja húsið vel og vand­lega Stjórnar­ráðinu og ráðu­neytunum þótt enn sé pappír fyrir gluggum.