Ráðstefna APEC-ríkjanna er árlegur viðburður þar sem stjórnarleiðtogar tuttugu og eins Kyrrahafsríkis mæta og ræða stjórnmála- og viðskiptatengd málefni sín á milli. Hlutverk ríkjanna er meðal annars að skapa nýja markaði fyrir hrávöru og landbúnaðarvörur utan Evrópu.

Frá því að ráðstefnan í ár byrjaði þann 16. nóvember hafa mótmæli og stjórnmálaspenna einkennt ráðstefnuna í taílensku höfuðborginni. Íbúar í Bangkok hafa haldið stöðug mótmæli gegn forsætisráðherra landsins, Prayuth Chan-ocha, í nokkur ár frá því að hann tók við embættinu undir neyðarlögum valdaráns sem átti sér stað árið 2014.

Í september á þessu ári ákvað hæstiréttur Taílands að framlengja valdatíma Prayuth fram til næstu kosninga. Mótmælendur hafa nýtt ráðstefnuna til að vekja athygli á gremju sinni og mættu þeir tugþúsundum lögreglu- og hermanna á götum borgarinnar meðan á ráðstefnunni stóð.

Stjórnarleiðtogar neyddust einnig til að funda vegna fregna um að Norður-Kóreumenn hefðu skotið á loft langdrægri eldflaug sem gæti borið kjarnorkuvopn alla leið til Bandaríkjanna. Japönsk stjórnvöld sögðu að eldflaugin hefði lent innan efnahagslögsögu þeirra og sögðu bandarísk yfirvöld eldflaugaskotið vera blygðunarlaust brot á fjölda ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, fundaði meðal annars með forsætisráðherrum Japans og Suður-Kóreu, en hún er stödd á ráðstefnunni í stað Joe Biden sem sagðist ekki geta mætt sökum brúðkaups hjá barnabarni sínu.

Xi Jinping var laus við bandaríska jafningja sinn á ráðstefnunni í Bangkok í vikunni.
Mynd/EPA

Fjarvera Joe Biden á ráðstefnunni setur Bandaríkin í erfiða stöðu gagnvart þjóðum innan Sambands Suðaustur-Asíuríkja. Hún styrkir þann hugsunarhátt að Bandaríkin líti ekki lengur á Asíu sem efnahagslegt forgangsatriði og að bandarísk áhrif á svæðinu muni halda áfram að dvína. Samkvæmt rannsókn um stöðu Suðaustur-Asíu sem gerð var af ISEAS-háskólanum í Singapúr töldu 76,7 prósent aðspurðra Kína vera áhrifamesta efnahagsveldi álfunnar.

Í opnu bréfi til æðstu leiðtoga ráðstefnunnar gagnrýndi Xi Jinping það sem hann kallaði „kalda-stríðshugsun, valdagræðgi og aflokunarstefnu“, lýsandi orð sem stjórnvöld í Peking hafa oft bendlað við Bandaríkin.

„Kyrrahafssvæðið er ekki bakgarður neins og ætti heldur ekki að vera vígvöllur fyrir valdasamkeppni. Tilraunir til að heyja nýtt kalt stríð verða aldrei leyfðar af okkar fólki á okkar tíma,“ segir Xi og bætir við að allar tilraunir til að valda tjóni á iðnaði og aðfangakeðjum muni aðeins skemma fyrir efnahagssamstarfi ríkjanna.