Á síðustu öld gátu ungar einstæðar mæður á hrakhólum leitað skjóls í sveitunum sem ráðskonur. Þær fengu fæði og húsnæði og andrými til að fóta sig í lífinu. Þetta var þó ekki hættulaust því að stór hluti þeirra varð fyrir ofbeldi, líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu, af hálfu bænda og þá var ekki hlaupið að því að komast undan. Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir sagnfræðingur rannsakaði heim íslenskra ráðskvenna árin 1950 til 2000 í doktorsrannsókn sinni.

„Flestar ráðskonurnar sem rætt var við minnast vistarinnar með hlýhug,“ segir Dalrún sem varði doktorsritgerð sína nýverið en stefnt er að því að gefa hana út sem bók á næsta ári. Föðuramma Dalrúnar var ráðskona í sveit, einstæð móðir sem fór með börn sín á nokkra bæi. Það er ein af ástæðunum fyrir áhuga Dalrúnar á rannsóknarefninu sem og að þessi starfsstétt hafði ekkert verið rannsökuð.

Lítið var til af rituðum heimildum um ráðskonur en Dalrún fékk innsýn í heim þeirra með viðtölum sem hún tók við konur sem höfðu sinnt þessu starfi á einhverjum tímapunkti í lífi sínu.

Hún auglýsti eftir ráðskonum, meðal annars í Bændablaðinu, spurðist fyrir og fékk ábendingar. Alls ræddi hún við 41 konu sem hafði gegnt ráðskonustarfi á 72 sveitabæjum, en tók auk þess 17 önnur viðtöl við einstaklinga sem gátu gefið aðra sýn á ráðskonustarfið.

Ungar og einstæðar mæður

Ráðskona var nokkurs konar ígildi eða staðgengill húsmóður, yfirleitt á bæjum þar sem engin húsmóðir var til staðar eða var fjarverandi. Oftast voru einhleypir bændur vinnuveitendurnir. Ráðskona hafði sömu skyldur og húsmóðirin en var hjú, ekki hluti af fjölskyldunni. Fyrst og fremst höfðu þær hússtjórnarstörf með höndum en hluti þeirra vann einnig hefðbundin sveitastörf utanstokks.

„Þetta voru alþýðukonur, flestar ungar með litla menntun og höfðu unnið láglaunavinnu í þéttbýlinu. Til dæmis í fiskverkun eða í verksmiðjum,“ segir Dalrún. Langstærsti hluti ráðskvenna voru einstæðar mæður með mjög ung börn sem voru með þeim í vistinni, en einnig einhleypar barnlausar konur. Mjög óalgengt var að giftar konur sinntu ráðskonustörfum.

Margar einstæðu mæðurnar áttu það sameiginlegt að hafa veikt bakland og engan eða lítinn stuðning frá barnsfeðrum sínum, sumar jafnvel nýkomnar úr ofbeldissambandi eða erfiðu hjónabandi. Húsnæðisvandi þeirra bætti ekki úr skák og sumar höfðu í engin hús að venda.

„Á mölinni þurftu einstæðu mæðurnar jafnvel að sinna fleiri en einu starfi til að láta hlutina ganga upp. Því fylgdi að þær þurftu að útvega dagvistun fyrir börnin, sem var erfitt að fá fyrr en síðla á 20. öld. Vítahringur einstæðra mæðra á mölinni olli því að launin hrukku oft ekki fyrir leigu, mat og dagvistun,“ segir Dalrún. „Þetta eilífa streð einstæðra mæðra gerði það að verkum að þær sáu ráðskonustarf til sveita sem lausn á sínum málum. Fæði og húsnæði þýddi öryggi og öryggi skiptir öllu máli þegar þú ert móðir.“

Ráðskonustarf á sveitabæjum gaf einstæðum mæðrum einnig tækifæri til þess að verja meiri tíma með börnum sínum en mögulegt var þegar þær unnu fyrir sér og börnum sínum á mölinni. Því ráðskonustarfið var eitt af örfáum störfum þar sem hægt var að vera með börnin í vinnunni.

Engin réttindi

Þrátt fyrir þetta öryggi sem ráðskonustarfið skapaði einstæðum mæðrum voru starfsréttindi ráðskvenna að segja má engin. Launasamningar þeirra voru munnlegir og orlofs- eða lífeyrisréttindum ekki til að dreifa, enda ekkert stéttarfélag til að leita til.

„Þær töluðu flestar um launin sem hálfgerðan vasapening í viðtölunum,“ segir Dalrún um þau laun sem flestar ráðskonur fengu, auk fæðis og húsnæðis sem var launaígildi.

Flestar konurnar voru í einni vist en allnokkrar í tveimur. Dæmi voru þó um að konur réðu sig í vist á fleiri bæjum. Sumar fóru aftur og aftur á sama bæinn, einkum á sumrin þegar þörfin var mest fyrir ráðskonur í sveit.

Oft mynduðust sterk tengsl milli ráðskvennanna og heimilisfólksins. Náin samskipti sem almennt myndast ekki á vinnustöðum því að vinnustaður ráðskvenna var einkaheimili. En slík samþætting vinnu og heimilis leiddi af sér aukna hættu á því að ráðskonur yrðu fyrir ofbeldi. Sérstaklega í ljósi þess að opinbert eftirlit með vinnustaðnum sveitaheimilinu var ekkert.

Slæmir bæir

Þriðjungur viðmælenda Dalrúnar varð fyrir ofbeldi í ráðskonuvist sinni. Fjórðungur kvennanna varð fyrir kynferðisofbeldi. Sumar af þeim höfðu kynnst ofbeldi áður en þær fóru í vistina, annað hvort úr hjónabandi sínu eða frá fyrri vinnustöðum. En ofbeldið sem þær urðu fyrir á sveitabæjunum var af öðrum meiði, því sveitabærinn var í senn samastaður þeirra og vinnustaður.

Lýsingunum sem hún tók niður eftir ráðskonum sem urðu fyrir ofbeldi í ráðskonuvist sinni segir Dalrún svipa mjög til lýsinga af heimilisofbeldi. Einkum hvað varðar þátt valdaójafnvægisins milli ráðskonunnar og bóndans.

Dalrún varði doktorsritgerð sína í sumar.
Mynd/aðsend

„Bóndinn var með fjárráðin og stýrði öllu inni á heimilinu en ráðskonan var berskjaldað vinnuafl,“ segir Dalrún. Það var ekki hlaupið að því að flýja ofbeldi á sveitabæjum. Dalrún segir að konur sem lentu á „slæmum bæjum“ og urðu þar fyrir ofbeldi hafi verið einangraðar og eina úrræði þeirra hafi verið að koma sér úr vistinni.

Ástir í sveit

Hið nána sambýli ráðskvenna og bænda leiddi stundum til náinna kynna. „Stór hluti viðmælenda minna átti í ástarsambandi meðan á vistinni stóð,“ segir Dalrún. „Annað hvort með bóndanum, bóndasyninum eða öðrum úr sveitinni sem þær hittu, til dæmis á balli.“

Ef ráðskonur tóku saman við bóndann urðu þær húsmæður á bænum og þá breyttist staða þeirra. Þær voru ekki lengur hjú heldur hluti af fjölskyldunni og nutu þess þá að húsmóðurstaðan var virðingarstaða. „Rómantískt samband milli bænda og ráðskvenna er ákveðið þrástef í sögunni,“ segir Dalrún.

Hlýhugur til starfsins

Dalrún segir að flestar kvennanna sem hún tók viðtöl við hafi verið þakklátar fyrir að þetta atvinnu­úrræði hafi verið í boði á sínum tíma. Auk þess kunnu þær að meta reynsluna sem þær öðluðust í ráðskonustarfinu.

Hins vegar nefndu sumar einstæðu mæðranna að þær hefðu viljað að velferðarkerfið hefði verið með þeim hætti að þær hefðu getað haft annan valkost. Velferðarkerfið var hins vegar ekki nægilega burðugt fyrr en síðla á 20. öldinni.

Undir lok 20. aldarinnar gerðu breytingar í íslensku þjóðfélagi það að verkum að starf íslensku ráðskonunnar leið í reynd undir lok. Þetta gerðist meðal annars vegna mikillar uppbyggingar í félagslega kerfinu og tilheyrandi umbótum í dagvistunarmálum.

„Eftir situr merkileg saga kvennastarfsstéttar frá miklum umbrotatímum í atvinnusögu þjóðarinnar,“ segir Dalrún.