Starfsmenn á sambýli á höfuðborgarsvæðinu fengu skilaboð frá stjórnanda um að hringja í 112 til að fá skutl í vinnuna í morgun vegna óveðursins. Öllum starfsmönnum var ráðlagt að panta skutl frá björgunarsveitinni.

„Það er spáð brjáluðu veðri í fyrramálið, það er rauð viðvörun sem hefur ekki verið gefin út áður. Þeir sem eiga að mæta á vakt kl. 8 og líst ekkert á blikuna með veðrið og að koma sér sjálfir í vinnuna þurfa að vakna snemma og panta skutl í vinnuna frá björgunarsveit. Hringið um hálfsjöleytið í 112 og pantið skutl. Hver hringir fyrir sig,“ segir í færslu sem var send inn á Facebook grúppu fyrir umrætt sambýli.

Mynd/Skjáskot

Ekki er vitað hvaða sambýli um ræðir en björgunarsveitin kannast ekki við að veita slíka „þjónustu“ á höfuðborgarsvæðinu. Björgunarsveitarmenn hafa þurft að sinna ótalmörgum útköllum, bæði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu.

„Hluti af undirbúningnum fyrir óveðrið var að tryggja að heilbrigðisstarfsfólk komist til og frá vinnu og björgunarsveitir hafa komið að því að einhverju leyti. Þetta snýst um að halda innviðum í landinu gangandi en við erum langt í frá að vera að bjóða upp á slíka þjónustu og ég kannast ekki við þetta einstaka mál,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Þetta snýst um tryggja að vaktaskipti fari fram á heilbrigðisstofnunum og í flestum tilfellum voru vaktaskipti færð framar og fóru fram í nótt í staðinn fyrir í morgun. Björgunarsveitir hafa verið að koma heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu úti á landsbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu.“

Skilaboðin voru send á alla starfsmenn, ekki einungis þá sem sinna umönnun heldur einnig þá sem sinna almennum störfum eins og ræstitækni.

„Ef þetta hefur verið sent á alla starfsmenn þá hlýtur þetta að vera misskilningur,“ segir Davíð en bætir við að björgunarsveitin sé að sjálfsögðu í samstarfi við heilbrigðisgeirann og lögreglu að halda innviðum samfélagsins gangandi.