Rétt eftir miðnætti í nótt barst lögreglu tilkynning um líkamsárás þar sem ráðist var á ungar stúlkur við Barónsstíg í Reykjavík.

Árásaraðilarnir eru taldir vera tveir drengir og ein stúlka. Voru þau farin af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn.

Áverkar voru ekki skráðir en málið er nú í rannsókn, er segir í dagbók lögreglu. Forráðamönnum og Barnavernd hefur verið tilkynnt um atvikið.

Um ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um aðra líkamsárás við Ingólfstorg. Þar var ráðist á mann með eggvopni og honum veittir áverkar á hálsi, að sögn lögreglu.

Fórnarlambið var flutt á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar. Um grunnan skurð var að ræða og ekki talin þörf á aðgerð. Árásarmaðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang.

Ógnaði konu með eggvopni

Rétt fyrir fimm í nótt var síðan tilkynnt um líkamsárás í Hlíðunum í Reykjavík þar sem maður réðst á konu og ógnaði henni með eggvopni. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður vegna rannsóknar í fangageymslu lögreglu.

Klukkan 3:21 barst tilkynning um að ráðist hefði verið á ungmenni í Árbæ. Árásaraðili var farinn af vettvangi. Málið er í rannsókn og hefur verið tilkynnt til forráðamanna og Barnaverndar.

Klukkan hálf sex í nótt var tilkynnt að maður væri að stela úr bílum í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Hann var handtekinn á vettvangi og sagðist vera búinn að fara í margar bifreiðar og stela munum.