Hjólahvíslarinn Bjartmar Leósson varð fyrir harkalegri líkamsárás í gærkvöldi á Laugavegi og telur hann málið tengjast stolnum hjólum.

Segist hann hafa verið að hjóla framhjá karlmanni sem kallaði ókvæðisorð eftir honum. Þegar Bjartmar sneri við og ætlaði að ræða við manninn hafi hann hjólað í hann, slegið til hans og skyrpt í andlitið á honum.

Þurfti hann að leggjast inn á bráðamóttöku, meðal annars til að láta skola augun.

„Þú vilt ekkert mikið lenda í svona þá sérstaklega á þessum COVID tímum,“ segir hann.

Leitar uppi stolin hjól

Bjartmar segist alltaf vera að fylgjast grant með hjólum í bænum og hafi verið að horfa á hjól mannsins sem réðist á hann.

„Ég horfi alltaf ósjálfrátt á öll hjólin í bænum og þar með hans hjól,“ segir Bjartmar í samtali við Fréttablaðið. Hann telur að maðurinn hafi sennilega kannast við sig en Bjartmar er löngu orðinn þekktur í Reykjavík fyrir að leita uppi stolin hjól og koma þeim í réttar hendur.

Bjartmar segir ótrúlegt að Íslandi skuli henda úr landi fjölskyldufólki en halda frekar í „svona skíthæla.“

„Viljum við hjálpa erlendu friðelskandi fólki eða erlendum þjófum og ofbeldismönnum? Hvenig fá illa innrættir menn frið til að vera hér og friðsömum fjölskyldum sparkað út?“ spyr Bjartmar og bætir við að málið snúist ekki um þjóðerni heldur framkomu fólks.