Karl­maður réðst á stjórn­mála­manninn Eric Zemmour á kosninga­fundi í París í gær. Hinn um­deildi hægri­öfga­maður Zemmour kom þar fram í fyrsta skipti opin­ber­lega eftir að hafa greint frá fram­boði sínu í for­seta­kosningunum í Frakk­landi sem fram fara í næstu viku.

Er hinn 63 ára gamli fram­bjóðandi gekk í gegnum mann­þröngina í ráð­stefnu­höll norð­austur af París veittist maður að honum og greip hann háls­taki. Á­rásar­maðurinn var hand­samaður skömmu síðar af öryggis­vörðum og fluttur á brott af lög­reglu. Kæra verður lögð fram gegn á­rásar­manninum að sögn tals­manns Zemmour, sem hrósaði yfir­manni sínum fyrir „hug­rekki“.

Í bar­áttu um að leiða öfga­hægri­menn

Mikil ólga var vegna fram­boðs­fundar Zemmour, enda er hann afar um­deildur einkum vegna skoðana sinna á inn­flytj­endum og at­burðum í Frakk­landi í síðari heims­styrj­öldinni. Um tíu þúsund manns sóttu fundinn en þúsundir mót­mæltu fyrir utan. Tugir mót­mælenda voru hand­teknir af lög­reglu.

Zemmour tekst nú á við Marine Le Pen um for­ystu á öfga­hægri­væng franskra stjórn­mála í að­draganda kosninganna. Hann hefur vakið hörð við­brögð með yfir­lýsingum sínum um að franska ríkið hafi haldið hlífi­skildi yfir gyðingum í landinu er það var her­numið af nas­istum. Þetta á sér enga stöð í raun­veru­leikanum og tók franska ríkið virkan þátt í að senda þúsundir gyðinga í opinn dauðann í út­rýmingar­búðum nas­ista. Sjálfur er Zemmour gyðingur af alsírskum ættum.