Rithöfundurinn Salman Rushdie varð fyrir árás er hann hélt fyrirlestur í New York í dag.

AP-fréttastofan greinir frá málinu, en blaðamaður þeirra var á vettvangi og sá þegar maður réðst á sviðið og kýldi eða stakk Rushdie. Rithöfundurinn endaði í jörðinni, og árásarmaðurinn yfirbugaður og handtekinn.

Ekki er vitað um ástand Rushdie að svo stöddu.

Salman Rushdie er umdeildur, en í umfjöllun AP er þess minnst þegar Íranir gáfu út morðhótanir vegna skrifa hans á níunda áratugnum.

Bók hans Söngvar Satans hefur verið bönnuð í Íran frá árinu 1988 þar sem hún þykir vera guðlast í augum margra múslima. Ári eftir bannið gaf Ayatollah Ruhollah Khomeini, þáverandi leiðtogi Íran, út opinbera tilskipun um að Rushdie skyldi drepinn.

Uppfært

Svo virðist sem Rushdie hafi verið stunginn í hálsinn. Hann var fluttur á spítala með þyrlu, en því er lýst að hann hafi verið blóðugur á vettvangi.

Ekki hefur verið gefið upp hversu alvarlegir áverkar Rushdie eru eða hvort hann sé í lífshættu. Reuters hefur það eftir umboðsmanni Rushdie, Andrew Wylie að hann sé í aðgerð þessa stundina.