Ráðist var á farþega í bíl fyrir utan skemmtistaðinn Pablo Discobar. DV greindi fyrst frá málinu og hefur eftir Jóni Bjarna Steinssyni, einum af eigendum Pablo Discobar, að starfsmaður staðarins sé kominn í ótímabundið leyfi vegna málsins.

Fórnarlambið, sem vildi koma fram undir mynd en ekki nafni, segir í samtali við Fréttablaðið að honum sé enn brugðið. „Mér líður ekkert sérstaklega vel,“ sagði hann. Hann segist hafa leitað til lögreglu.

Vitni sem var í bílnum segir að þeir hafi verið þrír á staðnum í gærkvöldi. Þá hafi meintur gerandi beðið þá um að yfirgefa staðinn því hann væri að loka. Ekkert hafi bent til þess að maðurinn ynni á staðnum því hafi þeir spurt hvort hann væri starfsmaður. Þá hafi hann tryllst.

Þeir hafi verið komnir í bíl fyrir utan þegar hann sá þá. Tóku þeir myndband af atvikinu sem DV birti.

Varðandi atvikið segir Jón Bjarni að starfsmaðurinn hafi sjálfur farið á lögreglustöð til að gefa skýrslu. „Ég hef upplýsingar um að þessir gestir hafi verið með leiðindi og neitað að yfigefa staðinn. Það afsakar samt ekki svona framferði, við höfum ekkert umburðarlyndi fyrir svona.“ Hann hafði ekki upplýsingar um hvort hann hafi verið handtekinn eftir skýrslutöku.