Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi og í nótt og eru fjölmörg mál skráð í dagbók lögreglu nú í morgunsárið.
Skömmu eftir miðnætti óskaði leigubílstjóri aðstoðar vegna farþega sem veittist að honum með ofbeldi. Þá olli hann skemmdum á leigubifreiðinni. Að sögn lögreglu var farþeginn handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann sökum vímuástands.
Um svipað leiti gáfu lögreglumenn í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, ökumanni merki um að stöðva akstur svo hægt væri að kanna með ástand og réttindi. Ökumaðurinn virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og ók á ofsahraða.
Ekki vildi betur til en svo að hann endaði utan vegar og mátti litlu muna að bifreiðin endaði inni í garði. Ökumaðurinn tók svo á rás en var hlaupinn uppi af lögreglumönnum. Maðurinn reyndist vera eftirlýstur hjá lögreglu vegna annarra mála auk þess sem hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Rétt fyrir klukkan eitt í nótt var svo tilkynnt um ökumann sem virtist sofa undir stýri bifreiðar á gatnamótum. Þegar lögregla hafði afskipti af ökumanninum reyndist hann vera undir áhrifum áfengis. Hann var færður á lögreglustöð en látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.
Lögregla handtók svo einstakling á tólfta tímanum í gærkvöldi vegna líkamsárásar. Hann var vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann. Ekki koma frekari upplýsingar um málið fram í dagbók lögreglu. Rétt fyrir klukkan tólf í gærkvöldi óskaði ökumaður bifreiðar aðstoðar lögreglu eftir að hafa ekið út af í Heiðmörk. Hann kenndi sér meins en afþakkaði aðstoð sjúkraflutningamanna.