Lögregla vaktaði Ráðhús Reykjavíkur á meðan borgarstjórnarfundur stóð yfir á þriðjudag eftir að meintur byssumaður áreitti varaborgarfulltrúa.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins úr Ráðhúsinu mun maðurinn sem sakaður var um að hafa skotið á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og höfuðstöðvar nokkurra stjórnmálaflokka hafa áreitt Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúa Miðflokksins.

Baldur vildi ekki ræða málið þegar eftir því var leitað en sagði það vera í ferli. Reykjavíkurborg staðfesti að áreitnin hefði átt sér stað en gaf ekki frekari upplýsingar.

Málið vakti mikinn óhug snemma á árinu. Var þá skotið á skrif­stofu Sam­fylkingarinnar og að bíl borgar­stjóra með stuttu milli­bili. Var einnig talið að skotið hefði verið á höfuðstöðvar fleiri flokka.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá var fyrr­verandi lög­reglu­maður hand­tekinn vegna málsins, neitaði hann sök í málinu. Mun málið nú vera á borði ákærusviðs.

Samkvæmt heimildum var forsætisnefnd kölluð á fund í kvöldmatarhléi, í kjölfarið var borgarfulltrúum tilkynnt að þeir mættu ekki fara einir úr húsi og leigubílar á kostnað borgarinnar stæðu til boða fyrir þá sem væru ekki á bíl.

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, vildi ekki tjá sig og vísaði á lögreglu.