Ráðherrum Framsóknarflokksins fjölgar um einn í nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem kynnt verður á morgun. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn halda sínum fjölda ráðuneyta. Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar verða því tólf og fjölgar um einn frá því sem nú er. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Sjálfstæðisflokkur mun fara með fimm ráðuneyti, Framsókn fjögur og Vinstri græn með þrjú. Katrín Jakobsdóttir mun áfram gegna embætti forsætisráðherra, að óbreyttu út kjörtímabilið. Em­bætti forseta Alþingis verður skipað þingmanni úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Líklega Birgi Ármannssyni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verða töluverðar breytingar innan Stjórnarráðsins samhliða kynningu á stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Ekki aðeins verða til ný ráðuneyti, heldur verða málaflokkar einnig fluttir milli ráðuneyta.

Eins og Fréttablaðið hefur áður fjallað um hefur nýtt innviðaráðuneyti verið á teikniborðinu frá því fyrir kosningar, en með því yrðu húsnæðis- og skipulagsmál færð inn í sama ráðuneyti og fer með samgöngumál og málefni sveitarstjórna. Einnig hefur komið til greina að inn í sama ráðuneyti fari veigamiklir málaflokkar á sviði orkumála og iðnaðar.

Meðal annarra málaflokka sem rætt hefur verið um að færa milli ráðuneyta eru skógrækt, landgræðsla og landnýting. Einnig hefur komið mjög til umræðu að hreyfa við málaflokkum sem nú heyra undir mennta- og menningar­málaráðuneyti. Þá má einnig búast við tilfærslum á málaflokkum milli þeirra ráðuneyta sem fara með atvinnumál, á sviði iðnaðar, ferðamála, landbúnaðar, sjávarútvegs og nýsköpunar. Málaflokkar sem heyrt hafa undir fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa líka verið á hreyfingu í viðræðunum og jafnvel rætt um nýtt viðskiptaráðuneyti.

Nýr stjórnarsáttmáli flokkanna verður kynntur innan þeirra í dag, eftir því sem lög flokkanna kveða á um. Flokksráð Vinstri grænna fundar klukkan tvö og flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman í Valhöll klukkan þrjú. Miðstjórn Framsóknarflokksins fundar einnig klukkan þrjú, á fjarfundi.

Leggi flokkarnir blessun sína yfir stjórnarsáttmála og skiptingu ráðuneyta milli flokkanna, verður boðað til þingflokksfunda í fyrramálið þar sem ráðherralistar verða bornir upp til samþykktar.

Að óbreyttu verður svo boðað til blaðamannafundar eftir hádegi á morgun, til kynningar á nýrri ríkisstjórn og stjórnarsáttmála hennar. Að því loknu verður haldið til Bessastaða þar sem síðasti ríkis­ráðsfundur sitjandi ríkisstjórnar fer fram. Þar verður ráðherrum veitt lausn frá sínum embættum. Þeirra á meðal er Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hverfur úr ríkisstjórn.

Að þeim fundi loknum fer fram annar fundur í ríkisráði, fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar með forseta Íslands.