Ráð­herrar í ríkis­stjórn Boris John­son hafa fylkt liði bak við for­sætis­ráð­herrann á meðan stjórnar­and­staðan og aðrir þing­menn úr hans eigin flokki kalla eftir af­sögn hans.

Styr hefur staðið um John­son eftir að upp komst um partý sem haldið var í húsa­kynnum hans að Downing­stræti 10 í miðri fyrstu bylgju Co­vid far­aldursins þegar al­menningi í Bret­landi var ó­heimilt að hitta meira en einn utan heimilisins.

Dou­glas Ross, leið­togi Skoska Í­halds­flokksins, hefur hvatt John­son til að segja af sér og sendi van­trausts­yfir­lýsingu til nefndarinnar sem stýrir for­­manns­vali í­halds­­flokksins. Ef fleiri en 54 þing­menn Í­halds­flokksins skrifa nefndinni getur farið fram form­leg kosning um trausts­yfir­lýsingu.

Jacob Rees-Mogg, leið­togi neðri deildar Breska þingsins, hefur þó af­skrifað Ross sem minni spá­mann og sagt að rann­sókn þurfi að fara fram á hvort sam­komu­tak­markanir ríkis­stjórnarinnar hafi verið í réttu hlut­falli eða of í­þyngjandi.

„Ég held að allir geri sér grein fyrir því, í öllum deildum þingsins, að fólk var að fylgja reglunum og að það var mjög erfitt fyrir fólk að fylgja þessum reglum,“ segir Rees-Mogg.

Brandon Lewis, ráð­herra Norður-Ír­lands, segist standa við bak John­son og vill bíða eftir að máls­at­vik skýrist en ríkis­starfs­maðurinn Sue Gray vinnur nú að sjálf­stæðri rann­sókn á málinu.

Utan­ríkis­ráð­herra Bret­lands, Liz Truss, hefur einnig sagst styðja for­sætis­ráð­herrann 100 prósent en Rishi Sunak, fjár­mála­ráð­herra, segir að það hafi verið rétt af John­son að biðjast af­sökunar. Þá hefur Dominic Raab, að­stoðar­for­sætis­ráð­herra, sagt for­sætis­ráð­herrann hafa svarað vel fyrir sig.

Boris John­son sat fyrir svörum í Breska þinginu í gær þar sem hann viður­kenndi að hafa mætt í gleð­skapinn og stoppað þar við í um 25 mínútur til að þakka kollegum sínum fyrir vel unnin störf. Hann segist hafa talið að um starfs­tengdan við­burð væri að ræða en bauð þó engu að síður eigin­konu sinni, Carri­e John­son, með í teitið.

Hann baðst af­sökunar á fram­komu sinni og sagðist skilja að fólk væri reitt.

„Ég skil reiði fólks gagn­vart mér og gagn­vart ríkis­stjórn minni þegar þeim líður eins og að í Downing­stræti sé fólkið sem setur reglurnar ekki að fylgja þeim sjálft. Og þótt ég geti ekki séð fyrir niður­stöður nú­verandi rann­sóknar þá hef ég séð nóg til að vita að það voru mis­tök gerð og ég þarf að taka á­byrgð.“