Ný ríkisstjórn tekur við í dag og formenn flokkanna kynntu að loknum þingflokksfundum í dag hverjir taka við embætti ráðherra innan þingflokkanna. Töluverðar breytingar eru á því auk tilfærslna á verkefnum.

Katrín Jakobsdóttir verður áfram forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn og Guðmundur Ingi Guðbrandsson verður félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, með sjávarútvegs og landbúnaðarmál.

Sigurður Ingi Jóhannsson, verður nýr innviðaráðherra og Willum Þór Þórsson tekur við af Svandísi Svavarsdóttur í heilbrigðisráðuneytinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mun stýra nýju viðskipta- og menningarmálaráðuneyti og að Ásmundur Einar Daðason verði nýr skóla- og barnamálaráðherra.

Ingibjörg Isaksen verður þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Stefán Stefánsson Vagn mun stýra mikilvægum nefndum en Sigurður Ingi sagði það munu skýrast betur eftir helgi.

Breytingar verða einnig á ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins en þar verður Bjarni Benediktsson þó enn í fjármálaráðuneytinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður utanríkisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, forveri hennar þar, tekur við umhverfis – og loftslagsmálunum.

Þá verður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýr ráðherra nýsköpunar, iðnaðar og háskóla og Jón Gunnarsson verður dómsmálaráðherra. Guðrún Hafsteinsdóttur, nýr þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, mun taka við keflinu af honum síðar á kjörtímabilinu.