Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins er sá eini í forsætisnefnd Alþingis sem stendur ekki að lagafrumvarpi um að fella niður akstursgreiðslur alþingismanna í aðdraganda þingkosninga. Málið er á dagskrá þingfundar í dag og er lagt fram af forsætisnefnd og tveimur áheyrnarfulltrúum nefndarinnar.

Ganga eigi lengra

Þorsteinn segist sammála því að takmarka endurgreiðslur stuttu fyrir kjördag en frumvarpið gangi ekki nógu langt: „Í þessu frumvarpi eru ráðherrarnir skildir eftir. Það hefur komið yfirlýsing frá ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins um að akstursmál ráðherra verði tekið fyrir þegar þetta frumvarp verður samþykkt. Því treysti ég ekki. Ég vil ekki klippa þarna á milli þingmanna og ráðherra þar sem þeir eru jú líka þingmenn. Mér finnst ekki rétt að fjarlægja ráðherrana frá þinginu með þessum hætti. Ég er tortrygginn á að það verði ekki settar takmarkanir á ráðherra fyrr en eftir kosningar“, segir Þorsteinn.

Sex vikum fyrr falli réttur niður

Í frumvarpinu eru tilteikin tímamörk sett á rétt þingmanna til endurgreiðslu ferðakostnaðar í aðdraganda kosninga til Alþingis. „Réttur þingmanns sem sækist eftir endurkjöri, fellur niður þegar sex vikur eru til kjördags. Þó má ákveða í reglum forsætisnefndar að heimilt sé að endurgreiða alþingismanni ferðakostnað á þessu tímabili ef um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum Alþingis eða þegar Alþingi er enn að störfum og þingmaður tekur þátt í störfum þess,“ segir þar.

Jafna aðstæður þingmanna og nýrri frambjóðenda

Rökin að baki því að takmarka rétt þingmanna, sem sækjast eftir endurkjöri, til endurgreiðslu ferðakostnaðar eru þau að þannig megi tryggja betur að jafnræði sé með þeim og nýjum þingmannsefnum eða nýjum stjórnmálasamtökum, til dæmis þegar þeir koma sér á framfæri við kjósendur.