Hermenn handtóku í dag forsætisráðherra og fjóra ráðherra úr bráðabirgðastjórn Súdans.

Reuters greinir frá því að Abdalla Hamdok forsætisráðherra sé í haldi á óþekktum stað eftir að hann neitaði að gefa út opinbera stuðningsyfirlýsingu við valdaránið.

Flugvellinum í Khartoum, höfuðborg Súdan, hafi verið lokað og öllum flugferðum úr landinu aflýst. Heimildarmenn Reutersí höfuðborginni segja mikinn viðbúnað hers og lögreglu á götum borgarinnar.

Dóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherrans birti eftirfarandi myndir á Facebook af handtöku föður síns.

Myndir af handtöku eins ráðherrans hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Mynd: Isma'il Kushkush

Stefndu á lýðræðislegar kosningar

Bráðabirgðastjórn hefur verið við völd í Súdan, skipuð herforingjum og fulltrúum sem leiddu mótmæli gegn fyrrverandi forseta og ríkisstjórn landsins árið 2019.

Meginhlutverk stjórnarinnar er að undirbúa lýðræðislegar kosningar í landinu en lög landsins byggðust á sjaríalögum þar til eftir byltinguna 2019 og 2020 þegar fallist var á aðskilja ríki og trú.

Í mótmælunum 2019 krafðist almenningur borgaralegrar stjórnar án aðkomu hersins. Herinn gaf eftir og var stefnt á kosningar á næsta ári en þau áform eru nú í uppnámi.