Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson munu fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Vestfjarða og heimsækja Flateyri, Suðureyri og Ísafjörð. Þetta staðfestir Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarkona forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið.

Að sögn Bergþóru er ætlun ráðherranna að ræða við íbúa og skoða aðstæður eftir snjóflóðin í fyrrakvöld.

Ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega ráðherrarnir leggja af stað, en það komi í ljós fljótlega að sögn Bergþóru sem býst þó við að farið verði fljótlega eftir hádegi. Ráðherrarnir munu fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur og er ætlunin að þau snúi aftur til Reykjavíkur í kvöld.

Nákvæmlega 25 ár eru í dag frá snjóflóðinu mannskæða á Flateyri, en Katrín sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að snjóflóðin nú ýfðu upp slæmar minningar frá þeim atburðum.

Í kjölfar snjóflóðanna í fyrrakvöld hefur komið fram gagnrýni á að ríkið sé tíu árum á eftir áætlun með byggingu snjóflóðavarnargarða. Bjarni Benediktsson sagði í fréttum Rúv í gærkvöldi að horfast þyrfti í augu við að áætlanir um byggingu varnargarða hefðu ekki gengið eftir. Þeir hefðu samt sem áður sannað gildi sitt þegar þeir beindu flóðunum á Flateyri fram hjá byggðinni.

Unglingsstúlka grófst undir snjóflóðinu þegar það flæddi yfir varnargarðinn, en var bjargað eftir um háltíma.