Tveir ráðherrar írsku ríkisstjórnarinnar eiga nú í harðri deilu vegna umhverfisáhrifa af sjókvíaeldi. Umhverfisráðherrann segir núverandi regluverk leiða til skaðlegra og ósjálfbærra áhrifa á villta fiskstofna, sérstaklega á laxfiska.

Sjávarútvegsráðherrann segir á móti að reglurnar uppfylli allar kröfur er lúti að skyldum ríkisins í umhverfismálum.

Sagt er frá bréfaskiptum ráðherranna um málið í vefritinu SalmonBusiness. Eamon Ryan umhverfisráðherra segir þar mikinn meirihluta ritrýndra vísindarannsókna, bæði á Írlandi og á alþjóðavísu, skýrt sýna að sá ótvíræði skaði sem lús frá sjókvíaeldi valdi laxfiskum sé óásættanlega mikill og eigi snaran þátt í hnignun þessara stofna. Hefur Ryan kallað eftir breyttri stefnu til að draga úr þessari hættu.

Charlie McConalogue sjávarútvegsráðherra svarar umhverfisráðherranum hins vegar því til að embættismenn taki fullt tillit til mögulegra umhverfisáhrifa áður en sérhver ákvörðun sé tekin um úthlutun leyfa í þessari atvinnugrein. Evrópusambandið hafi viðurkennt þær aðferðir sem Írar beiti til að fylgjast með lúsum í sjókvíaeldinu.

„Það vantar skýrar sannanir sem tengja lúsina eina við háa dánartíðni,“ er haft eftir sjávarútvegsráðherranum sem bætir því við að sögn SalmonBusiness að eftirlit með starfseminni sé algerlega óháð iðnaðinum sjálfum og að niðurstöðurnar séu öllum opnar.

McConalogue er úr miðhægriflokknum Fianna Fáil og Ryan er leiðtogi flokks Græningja.