Æðstu ráðamenn í ríkisstjórn Bandaríkjanna hugðust segja af sér til að mótmæla hegðun og framgöngu Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Þetta kemur fram í nýrri bók sem skrifuð er af nafnlausum höfundi sem ku vera núverandi eða fyrrverandi innanbúðarmaður í Hvíta húsinu.

Höfundurinn er sá sami og skrifaði nafnlausa grein í The New York Times í fyrra sem olli nokkru fjaðrafoki vestanhafs. Var þar farið yfir hvernig hópur ráðamanna í innsta hring hefði tekið sig saman með það að markmiði að koma í veg fyrir að tilfinningar forsetans sköðuðu hagsmuni Bandaríkjanna.

Bókin heitir Viðvörun, eða A Warning, og kemur út þann 19. nóvember. Dagblaðið The Washington Post er komið með eintak og voru nokkrar blaðsíður úr bókinni opinberaðar í þætti Rachel Maddow á sjónvarpsstöðinni MSNBC.

Stephanie Grisham, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, segir bókina lygar. „Alvöru höfundar hafa samband við þá sem þeir skrifa um til að fá staðreyndir á hreint. Þessi einstaklingur er í felum, sem gerir það ómögulegt,“ segir í bréfi Grisham til fjölmiðla. „Þessi heigull setti ekki nafn sitt á bókina því hann veit að bókin er ekkert nema lygar.“

Í bókinni segir að hópurinn, sem kennir sig við stöðugleika, hafi alvarlega íhugað að segja af sér á sama tíma til að mótmæla hegðun Trumps sem forseta og „koma í veg fyrir að hjólin rúlli undan bílnum“ eins það er orðað í bókinni. Hópurinn hafi svo hætt við þar sem aðgerðin gæti grafið undan stöðugleika í landinu. Viðurkennir höfundurinn að hópurinn hafi aldrei náð að hafa nein áhrif á forsetann.

Meðal þess sem kemur fram er að þegar verið var að ræða mikilvæg mál, jafnvel upp á líf og dauða, væri forsetinn aldrei búinn að undirbúa sig. Aðstoðarmenn forsetans hefðu bent ráðherrunum á að fá Trump aldrei löng minnisblöð í hendur því „hann mun aldrei lesa þau“. Það hafi leitt til þess að öll mál eru sett upp í glærusýningar.

„Það var helst PowerPoint því hann vill læra með myndum,“ segir höfundurinn um Trump. Síðar hafi komið beiðnir um að stytta glærusýningarnar og bæta við myndum því forsetinn ætti erfitt með að halda athygli. Allir sem gæfu skýrslu væru svo beðnir um að koma aldrei með meira en þrjá meginpunkta, hvort sem það væri um yfirlit fjármála eða stöðu hernaðarmála.

Í raun snerist upplýsingagjöf til forsetans um að mæta á fund og endurtaka sama hlutinn aftur og aftur þangað til hann næði því sem þyrfti að gera. Í eitt skipti hafi Trump svo fengið ítarlegt minnisblað áþekkt þeim sem forverar hans fengu í hendur. „Hvað í andskotanum er þetta?“ mun Trump hafa spurt. „Þetta eru bara orð. Fullt af orðum. Þau segja mér ekki neitt.“ Er forsetanum lýst sem „tólf ára barni í flugturni sem ýti handahófskennt á takka“.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sendi bréf til útgefanda bókarinnar á mánudaginn með beiðni um upplýsingar um nafn höfundarins þar sem möguleiki væri á að verið væri að brjóta samningsbundinn trúnað.