Um sex ráðherrabílum var lagt í lausagangi fyrir utan Hörpu. Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir á Landspítalanum, vakti athygli á málinu á Facebook með færslu undir yfirskriftinni „Ráðherrar í lausagangi“.

Hjalti var nýkominn af opnunarhátíð barna þings í Hörpu þar sem mest öll ríkisstjórnin og forseti mætti. Þar sá hann ekki betur en sex ráðherrabíla og einn forsetabíl í bið á planinu fyrir utan.

„Voru flestir ef ekki allir þessir bílar í lausagangi með bílstjóra að bíða eftir hæstvirtum ráðherrum sínum, í fullkomnu þarfleysi að menga umhverfið,“ skrifar Hjalti Már.

Ökutæki í lausagangi valda heilsuspillandi mengun og er óheimilt samkvæmt lögum að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin samkvæmt umferðarlögum. Óheimilt er að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á. Reglurnar eiga þó ekki við um ökutæki lögreglu og slökkviliðs.

Hjalti Már bendir á að ríkisstjórnin ætti að vera leiðandi við að grípa til róttækra aðgerða í baráttunni gegn loftslagsvánni.

„Þessi hegðun ráðherranna mun væntanlega ekki hafa nein úrslitaáhrif á stöðu umhverfismála en mér þykir hún táknræn um að þessari ríkisstjórnin er í lausagangi í umhverfismálum og virðist ekki vera að taka á málaflokknum af neinni alvöru.“

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrstu kom fram að forsetabíllinn hefði einnig verið í lausagangi en ljóst er að svo var ekki.