Mennta- og barnamálaráðherra vinnur nú að leiðbeinandi verklagsreglum um einveruherbergi, fyrir kennara og starfsfólk skóla, en þar mun koma fram hvenær og við hvaða aðstæður megi nota slík herbergi og hvaða málsmeðferðarreglur skuli miða við. Litið verður til núverandi löggjafar, reglugerða og aðalnámskrár við þá vinnu og það haft að leiðarljósi við útgáfu verklagsreglnanna. Þetta kemur fram í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins til Umboðsmanns Alþingis, um einveruherbergi.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segist fagna úttekt Umboðsmanns Alþingis og að ráðuneyti hans ætli að bregðast við málinu með fjölbreyttum hætti.

„Það þarf að marka reglurnar, hver er að gera þetta, hvernig er það gert og hvernig er það skráð,“ segir Ásmundur Einar, og að afstaða ráðuneytisins sé ekki að það þurfi að banna herbergin alfarið, en að skýra þurfi betur notkun þeirra.

Samhæfð ráðgjöf

Í svari ráðuneytisins við bréfi umboðsmanns Alþingis kemur fram að þar verði stofnaður vinnuhópur með helstu hagsmunaaðilum, til þess að skoða álitamál sem snúa að notkun einveruherbergja.

Þá ætlar ráðuneytið að biðja Brúarskóla um upplýsingar um hvaða skóla þau hafi aðstoðað við einveruherbergi og með hvaða hætti. Ráðuneytið ætlar einnig að taka afstöðu til með hvaða hætti beri að skrá beitingu úrræðisins og tilkynna viðeigandi aðilum og skoða hvernig hægt sé að bæta fræðslu og þjálfun starfsfólks hvað varðar faglegar og lagalegar heimildir til að bregðast við málum nemenda með alvarlegan hegðunarvanda.

Þá segir að lokum að ráðuneytið muni taka til skoðunar fýsileika þess að setja upp miðlæga ráðgjöf, í stað þeirrar sem Brúarskóli og aðrir sérskólar hafa sinnt, með það að markmiði að samhæfa betur ráðgjöf á landsvísu.

„Í stóra samhenginu er það þannig að það er úrræðaleysið innan skólakerfisins gagnvart því hvernig við vinnum með börnum sem eru með ýmsar áskoranir og það er verkefnið sem er fram undan. Með innleiðingu nýju farsældarlaganna erum við að fara inn í það,“ segir Ásmundur Einar.

Samhliða innleiðingu laganna muni hann beita sér fyrir því að hefja samtal við skólakerfið um hvernig farsældin komi þar inn og hvenær félagsþjónustan þurfi að stíga inn og með hvaða hætti.

Við ætlum að fara í þetta samtal og setja kraft í þessa vinnu svo hægt sé að skýra hvernig megi gera þetta og með hvaða hætt

„Hluti af þeirra innleiðingarvinnu verður að endurskoða aðkomu félagsþjónustu og annarra kerfa að skóla án aðgreiningar,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir að með stofnun nýs mennta- og barnamálaráðuneytis, og með því að fá félagsmálin líka þangað inn, sé gerð tilraun til að endurskoða hvernig mennta- og félagsmál samtvinnast og að samhliða því verði öll úrræði og tæki og tól endurskoðuð.

„Við ætlum að fara í þetta samtal og setja kraft í þessa vinnu svo hægt sé að skýra hvernig megi gera þetta og með hvaða hætti.“