Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, varði deginum í gær með vinkonuhópi sínum og kíkti út á lífið. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að sóttvarnaryfirvöld hér í landi hafa undanfarna daga biðlað til landsmanna að gæta varúðar í samkvæmum þar sem áfengi er haft við hönd.

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá Ríkislögreglustjóra og stjórnandi Almannavarna hefur sagt allt of mörg dæmi þess að eina tenging þeirra sem smitist hér­lendis af kóróna­veirunni eftir nánd við smitaðan ein­stak­ling, sé djammið.

Ný tilfelli af COVID-19 greinast daglega á Íslandi en sóttvarnarráðstafnir voru hertar á ný í byrjun ágúst í ljósi uppgangs veirunnar.

Þórdís og vinkonur hennar, þar á meðal Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir fjölmiðlakona, kíktu á veitingastaðinn Vox í svokallaðan „botnlausan bröns“, fóru í heilsulind, í verslunarleiðangur og kíktu svo út á lífið.

Þá voru ekki tveir metrar á milli vinkvennanna af myndunum að dæma. Búið var að eyða nokkrum myndum af ráðherranum eftir að þær voru birtar en Fréttablaðinu bárust ábendingar og skjáskot af myndunum áður en þeim var eytt þar sem fólk furðaði sig á málinu í ljósi aðstæðna.

Ráðherra kíkti í „bottomless brunch“.
Instagram/Skjáskot

Flestir skemmtistaðir með fullnægjandi ráðstafanir

Svo virðist sem fleiri Íslendingar hafi sleppt fram af sér beislinu í gærkvöldi en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk mikið af tilkynningum vegna samkvæmishávaða í gærkvöldi.

Tekið er fram í dagbók lögreglu að veitinga- og skemmtistaðir í miðbænum standi sig vel við að tryggja tvo metra milli hópa. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði 47 veitinga- og skemmtistaði í Reykjavík í gærkvöldi og var einungis einn staður ekki með fullnægjandi ráðstafanir og sóttvarnir að þeirra mati. Starfsfólk gerði úrbætur á staðnum á meðan heimsókn lögreglu stóð.