Líftæknifyrirtækinu Ísteka verður óheimilt að flokka greiðslur sínar til blóðmerabænda vegna blóðs eftir því hversu miklar heimtur eru úr hverju hrossi samkvæmt drögum að nýrri reglugerð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum hefur verið kynnt á Samráðsgátt en nú gefst almenningi og hagsmunaaðilum færi á að leggja fram umsögn áður en lengra verður haldið.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá verður blóðmerahald áfram stundað á Íslandi en nokkrar breytingar verða gerðar á fyrirkomulaginu. Á næstu þremur árum verður fylgst gaumgæfilega með starfseminni og lagt mat á framtíð hennar. Efnt verður til sérstakrar umfjöllunar um siðferðislega álitamál tengd starfseminni.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram drög að reglugerð um blóðtöku. Hún mun efna til sérstakrar umfjöllunar um siðferðislega álitamál tengd starfseminni.
Mynd/Eyþór

Geta ekki skipt verðskrá í flokka

Í tíundu grein reglugerðarinnar segir um hvatakerfi: „Kaupanda er óheimilt að flokka greiðslur vegna blóðs eftir því hversu miklar heimtur eru úr hverji hrossi.“

Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps Svandísar sem lagði til að ekki yrði leyfilegt að notast við framleiðslukerfi sem hvetti til og byggi á magnframleiðslu. Það gæti stefnt velferð dýranna í hættu. Skýrslu starfshópsins má lesa í heild sinni hér.

Verðskrá Ísteka hefur verið skipt í þrjá flokka. Borgað er mest fyrir bestu heimtur en til að lenda í hæsta gæðaflokki, og fá þá hæsta verðið fyrir blóðið, þarf hryssa að gefa af sér að meðaltali fimm lítra í senn. Minni heimtur og minni fyljun hryssa leiðir til þess að afurðin er metin í lægri gæðaflokki.

Í fyrra fengu bændur:

  • 9.329 krónur fyrir einingu í lægsta flokki
  • 11.196 krónur fyrir miðflokk
  • 12.311 krónur fyrir hæsta gæðaflokkinn.