Kristinn Haukur Guðnason
Laugardagur 13. ágúst 2022
05.00 GMT

„Því hefur verið haldið fram og enginn mót­mælt að við þurfum tvo flug­velli vestan Hellis­heiðar,“ segir Sigurður Ingi Jóhanns­son inn­viða­ráð­herra. „Við erum með fjóra al­þjóð­lega flug­velli þar sem þrír virka sem vara­flug­vellir fyrir Kefla­vík.“

Þetta eru Reykja­víkur­flug­völlur, Akur­eyrar­flug­völlur og Egils­staða­flug­völlur. Vellir sem hafa sínar tak­markanir vegna fjar­lægðar og/eða stærðar. Þar fyrir utan er verið að kanna fýsi­leika Hvassa­hrauns, en aðrar stað­setningar hafa líka verið nefndar.

Reykja­vík

Pólitískt séð er Reykja­víkur­flug­völlur ein heitasta pólitíska kar­tafla undan­farinna ára. Völlurinn er al­þjóð­legur vara­flug­völlur en bent hefur verið á að hann sé of lítill til að gegna því hlut­verki og ó­næði af flugi mikið. Í dag eru flug­tök og lendingar á Reykja­víkur­flug­velli á bilinu 20 til 32 á dag og þykir mörgum nóg um. Í Kefla­vík eru þau um 170.

„[F]lug­brautir Reykja­víkur­flug­vallar [eru] of stuttar fyrir margar af þeim flug­véla­tegundum sem nú fljúga í reglu­bundnu flugi til Kefla­víkur­flug­vallar. Því eru þróunar­tæki­færi Reykja­víkur­flug­vallar sem vara­flug­völlur tak­mörkuð,“ segir í skýrslu Þor­geirs Páls­sonar fyrr­verandi flug­mála­stjóra frá 2017. Einnig að „[v]eru­legar breytingar á legu eða lengd flug­brauta á Reykja­víkur­flug­velli eru ill­fram­kvæman­legar vegna þess að kostnaður og rask yrði mikið en á­vinningurinn lítill.“

Sigurður Ingi segir það vanda­mál ef Reykja­víkur­flug­völlur þrengist eða lokast og þess vegna sé verið að skoða aðra val­kosti. „Við hjá ríkinu leggjum mjög mikla á­herslu á að á meðan slíkur val­kostur sé ekki til sé Reykja­víkur­flug­velli haldið í nægi­legu rek­star­flu­g­öryggi,“ segir hann. Einnig telur Sigurður að Reykja­víkur­flug­völlur virki vel sem vara­flug­völlur að stærstu leyti enn þá.

Einnig að raf­væðing flugsins gæti breytt því ó­næði sem verður af flugi yfir Reykja­vík. „Ef innan­lands­flug fer á næstu sjö til tíu árum yfir í raf­magns­flug þá verður enginn há­vaði og engin mengun. Þá getum við líka sloppið með styttri brautir,“ segir hann.

Akur­eyri og Egils­staðir

Stjórn­mála­menn á Norður­landi og Austur­landi hafa þrýst mjög á upp­byggingu flug­vallanna á Akur­eyri og Egils­stöðum sem vara­flug­valla og ný­lega hóf nýtt norð­lenskt flug­fé­lag, Niceair, að fljúga beint frá Akur­eyrar­flug­velli.

Fáir deila um mikil­vægi þess að hafa þessa tvo velli til taks í neyðar­til­fellum en hæpið er að þeir geti þjónað hlut­verki vara­flug­vallar fyrir Kefla­víkur­flug­völl í þeirri ferða­manna­sprengju sem orðið hefur undan­farin ár. Sam­kvæmt um­sögn öryggis­nefndar Fé­lags ís­lenskra at­vinnu­flug­manna um sam­göngu­á­ætlun árið 2019 koma allt að 80 flug­vélar til Kefla­víkur á degi hverjum. Einungis er pláss fyrir fjórar til fimm vélar á Akur­eyri og Egils­stöðum.

Siguður Ingi segir ríkis­stjórnina til­búna að verja tals­verðum fjár­munum í upp­byggingu þessara valla. Meðal annars með stækkun flug­stöðvarinnar á Akur­eyri og byggingu nýrra brauta á Egils­stöðum. „Þetta eru þó nokkrir milljarðar á hverju ári,“ segir hann.

Annar vandi er að þessir vellir eru mjög langt frá höfuð­borgar­svæðinu.

Hvassa­hraun

Sigurður Ingi skipaði starfs­hóp til að rann­saka fýsi­leika á byggingu flug­vallar í Hvassa­hrauni, sem aðal- eða vara­flug­vallar á Reykja­nesi vorið 2019. Á­hættu­matið, sem unnið er af Veður­stofunni, gæti legið fyrir strax í haust en Sigurður Ingi gerir ráð fyrir að skýrslan í heild sinni verði til­búin í síðasta lagi í febrúar eða mars árið 2023.

Meðal þeirra sem talað hafa fyrir al­þjóða­flug­velli í Hvassa­hrauni eru Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri. Borgar­stjórn hefur lengi stefnt að því að koma innan­lands­fluginu úr Vatns­mýrinni og í Hvassa­hrauni sjá margir fyrir sér að hægt sé að tengja saman innan­lands- og milli­landa­flug.

Flug­fé­lagið Icelandair hefur einnig þrýst á rann­sóknir á Hvassa­hrauni sem aðal­flug­velli til langrar fram­tíðar. Stækkunar­mögu­leikar séu tak­markaðir á Kefl­víkur­flug­velli og hægt væri að þjónusta ís­lensk flug­fé­lög betur í Hvassa­hrauni.

And­stæðingar hug­myndarinnar benda hins vegar á að Hvassa­hraun sé á eld­gosa­svæði þar sem muni gjósa næstu ára­tugi eða aldir. Sem vara­flug­völlur henti Hvassa­hraun illa í ljósi veður­fars­legrar ná­lægðar við Kefla­víkur­flug­völl.

„Ég hef nú gjarnan sagt að við ættum að anda með nefinu þegar við erum að ganga í gegnum ó­vissu­tíma,“ segir Sigurður Ingi. Segist hann leggja á­herslu á að þessi vinna verði kláruð áður en aðrir mögu­leikar verða skoðaðir. „Við höfum séð það í vinnunni í kringum Hvassa­hraun að það að byggja upp nýjan al­þjóð­legan flug­völl með flug­stöð tekur að lág­marki 15 til 20 ár.“


„Við höfum séð það í vinnunni í kringum Hvassa­hraun að það að byggja upp nýjan al­þjóð­legan flug­völl með flug­stöð tekur að lág­marki 15 til 20 ár“


Sel­foss

Hug­myndin um al­þjóða­flug­völl á Suður­landi var til um­ræðu á árunum 2016 til 2017. Henni til stuðnings var nefnt að byggja þyrfti upp vara­flug­völl í ekki allt of mikilli fjar­lægð frá Kefla­víkur­flug­velli og höfuð­borgar­svæðinu. Einnig að meiri­hluti þeirra ferða­manna sem hingað sækja fara um Suður­land, svo sem hinn svo­kallaða Gullna hring.

Nefndar hafa verið stað­setningar eins og Geita­sandur, milli Hellu og Hvolsvallar. Lengst gekk þó könnun á svæði milli Sel­foss og Stokks­eyrar.

Sveitar­stjórn Ár­borgar lét kanna þennan mögu­leika og gera rann­sóknir en haustið 2019 var hann loks sleginn út af borðinu. Taldi sveitar­stjórn að flug­völlur myndi koma í veg fyrir að hægt væri á ein­hverjum tíma­punkti að tengja Sel­foss, Eyrar­bakka og Stokks­eyri saman með í­búa­byggð. Þá væri lík­legt að flug­völlurinn myndi skapa ó­sætti meðal íbúa sveitar­fé­lagsins.

Fyrir utan á­stæður sveitar­stjórnar hefur Hellis­heiðin verið talin vinna gegn Sel­fossi sem stað­setningu vara­flug­vallar, en hún getur reynst erfið veður­fars­lega. Á árunum 2012 til 2022 var Hellis­heiði lokað 120 sinnum.

Mýrar

Flug­völlur á Mýrum í Borgar­firði, norðan Borgar­ness, er til­tölu­lega ný­leg hug­mynd. Meðal þeirra sem rætt hafa um hana eru Píratar á Vestur­landi og Halla Sig­ný Kristjáns­dóttir, þing­maður Fram­sóknar­flokksins.

Halla, sem á sæti í um­hverfis- og sam­göngu­nefnd Al­þingis, sagði í við­tali við Frétta­blaðið fyrir skemmstu að huga þyrfti að öðrum val­kostum á landinu í ljósi jarð­hræringa á Reykja­nesi. Þegar Sunda­braut væri lögð og Vestur­lands­vegur tvö­faldaður yrði Borgar­fjörðurinn á­lit­legur kostur fyrir vara­flug­völl og mikið flat­lendi á Mýrum.

Engar vísinda­legar rann­sóknir liggja þó fyrir á þessum mögu­leika.

Sauð­ár­krókur

Lengi hefur verið talað um Alexanders­flug­völl, nefndan eftir Alexander Jóhanns­syni há­skóla­rektor, við Sauð­ár­krók í Skaga­firði, sem vara­flug­völl. Í grein í Morgun­blaðinu árið 1989 nefndi Jóhannes R. Snorra­son, sem var flug­stjóri í fyrsta ís­lenska milli­landa­fluginu með far­þega, að Alexanders­flug­völlur hefði hindrana­laust að­flug út og inn fjörðinn, svig­rúm væri gott og undir­staða vallarins mjög traust. Bæri hann af norðan­lands í vondum veðrum.

Þing­menn hafa marg­oft lagt fram til­lögur um Alexanders­flug­völl sem vara­flug­völl. Meðal annars þing­menn Fram­sóknar­flokksins, Gunnar Bragi Sveins­son og Ás­mundur Einar Daða­son árið 2013 og Sigurður Páll Jóns­son og Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þing­menn Mið­flokksins, síðast­liðinn vetur.

Þrátt fyrir góðar að­stæður og póli­tískan þrýsting hefur ekki orðið af því að gera Alexanders­flug­völl að vara­flug­velli. Er hann líka í all­nokkurri fjar­lægð frá Reykja­vík.

Athugasemdir