Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra segir stöðu barna fyrstu þrjú til fimm árin í lífi þeirra, og þar innan leikskólamál, til skoðunar innan ráðuneytis hans.
Það segir hann spurður um það hvort hann hafi áhyggjur af stöðu leikskólabarna en mikið hefur verið fjallað um neyðarástand í leikskólakerfinu undanfarna daga, og þá sérstaklega í Reykjavík.
„Við erum að undirbúa breytingar á leikskólalögum, breytingar á löggjöf sem tengist þessum árum og erum í samtali við alla hluteigandi aðila, þar með félagsmálaráðuneytið hvað varðar fæðingarorlof og atvinnulífið, Samtök atvinnulífsins, sveitarfélögin og hagsmunasamtök,“ segir Ásmundur og að það þurfi að taka allan málaflokkinn til endurskoðunar.
„Ekki eingöngu út frá fjölda leikskólaplássa heldur líka út frá samspili við önnur kerfi og hvernig við aðstoðum fjölskyldur út frá forsendum barna til þess að brúa þetta bil. Ég hef engar áhyggjur af því að sá kraftmikli meirihluti sem er í Reykjavík muni ekki ná að brúa þetta bil á næstu árum eins og önnur sveitarfélög hafa gert en við þurfum að taka þessi fyrstu ár í lífi barnsins til endurskoðunar, út frá hagsmunum foreldra og hagsmunum barnanna,“ segir Ásmundur sem telur þörf á að dýpka umræðuna.
Hann segir það til dæmis áhyggjuefni sem kemur fram í nýrri rannsókn að leikskólakennarar yngstu barna ná ekki að mynda augnsamband við barn allan vinnudaginn.
„Vinnudagur þessara barna er orðinn mjög langur og ég held að við þurfum miklu víðari umræðu um þetta í íslensku samfélagi,“ segir Ásmundur, og að sú umræða þurfi að fara fram á grundvelli hagsmuna allra barna á þessum aldri, ekki út frá einu sveitarfélagi.