Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra segir samstöðu vera innan ríkisstjórnarinnar um að efla lögregluna svo hún ráði betur við þær aðstæður sem blasa við í undirheimunum hér á landi. Hann heitir meiri fjármunum til málaflokksins.
Jón var gestur Sigmundar Ernis á Fréttavaktinni í kvöld þar sem hann ræddi einnig auknar heimildir til forvirkra aðgerða lögreglunnar, en frumvarp hans þess efnis er nú til meðferðar á Alþingi. Hann fagnar umræðu um frumvarpið og segir mikilvægt að skoða allar hliðar þess. Fráleitt sé hins vegar að hlaupa upp til handa og fóta hvað inntak frumvarpsins varðar – og ekki nái nokkurri átt að tala um að njósnabúnaður verði settur inn á hvert heimili eins og honum sýnist Píratar tala um.
Hann talar eindregið fyrir rafbyssuvæðingu lögreglunnar og óttast ekki að aukin vopnavæðing lögreglunnar kalli á meira ofbeldi á götum úti, þvert á móti sýni reynslan frá nágrannalöndunum að slysum fækki við notkun rafbyssna, bæði á lögreglumönnum og afbrotamönnum.
Sjá má viðtalið við Jón hér.