Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir að það taki á að lesa um upplifun þeirra stúlkna sem voru vistaðar á meðferðarheimilinu að Laugalandi/Varpholti í nýrri skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV). Hann segir ljóst að gera hefði mátt gera.

„Ég átti fund með nokkrum þeirra kvenna sem dvöldust á Laugalandi þegar ég var félags- og barnamálaráðherra þar sem þær sögðu mér sögu sína. Ég tók frásögn þeirra alvarlega og fannst fyllsta ástæða til að kalla eftir ítarlegri óháðri úttekt á starfsemi heimilisins, sem nú liggur fyrir og staðfestir sögu kvennanna,“ segir Ásmundur í svari til Fréttablaðsins.

Í skýrslu GEV kemur fram að sterkar vísbendingar séu um að ofbeldi hafi verið beitt þar með kerfisbundnum hætti en um helmingur þeirra barna sem voru vistuð á heimilinu greindu í viðtölum við GEV frá líkamlegu ofbeldi auk þess sem önnur urðu vitni að því. Þá kom einnig fram í skýrslunni að eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda brást og að það hefði átt að bregðast við kalli stúlknanna um aukna þjónustu og skerast hefði átt í leikinn.

Spurður hvað hann telji að hefði verið hægt að gera betur á heimilinu segir Ásmundur að mikilvægt sé að eftirlit sé ekki á sömu hendi og þeirra sem reka slík úrræði.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.
Fréttablaðið/Ernir

„Við höfum þegar brugðist við því með því að færa eftirlit með barnavernd til GEV, sem er óháð stofnun. Þá er einnig mikilvægt að hafa öflugt innra eftirlit og byggja allt starf á faglegum grunni. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að efla faglega umgjörð og faglegan stuðning við meðferðarstarf Barnaverndarstofu, nú Barna- og fjölskyldustofu. Það er alveg ljóst samkvæmt skýrslunni að skipulag starfsins hefði mátt vera betra,“ segir Ásmundur.

Hann segir að skýrslan sýni mikilvægi þess að vera með bæði fagleg og gagnreynd úrræði sem byggja á nýjustu þekkingu í öllu starfi með börnum, og að börn hafi alltaf tækifæri í gegnum talsmann eða vel skilgreinda aðila til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

„Börn eiga alltaf að hafa leiðir til þess að láta vita ef eitthvað er ekki í lagi og eiga ekki að þurfa að óttast refsingar. Það á ekki bara að vera hægt að láta vita ef eitthvað er að, heldur eigum við líka að reyna að koma í veg fyrir áföll og óæskilega hegðun með forvörnum. Þessi hugsun er einmitt rauði þráðurinn í löggjöf um farsæld barna, sem ráðuneytið er að innleiða þessi misserin. Um áramótin taka ákveðnar breytingar á barnaverndarlögum gildi og má þar nefna að barnaverndarnefndir verða ekki lengur pólitískt skipaðar,“ segir Ásmundur Einar.