„Þrátt fyrir að við höfum búið hér um aldir og ýmislegt brallað og sett okkur stefnur þá höfum við aldrei sett skýra langtímastefnu á sviði húsnæðismála,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á upphafsfundi um framkvæmd rammasamnings um aukið framboð á húsnæði sem undirritaður var milli ríkis og sveitarfélaga nú í júlí.

Áformað er að byggðar verði 20 þúsund íbúðir á næstu fimm árum en það eru 4 þúsund fleiri íbúðir en áður hafði verið áformað. Af þessum íbúðum verði 30 prósent nýrra íbúða hagkvæm og á viðráðanlegu verði og 5 prósent í formi félagslegra húsnæðisúrræða. Heildaráætlun hljóðar upp á 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Til þess að geta byggt upp íbúðir á viðráðanlegu verði sagði Sigurður Ingi að slíkar íbúðir verði búnar til með fjárframlögum ríkis og sveitarfélaga.

„Við setjum í lög ákveðnar heimildir til að tryggja að það sé eðlileg félagsleg blöndun í öllum reitum. Öll sveitarfélög landsins þurfa að takast á við það og við ætlum að beita þessum stuðningi ríkisins til þess að þetta sé hægt,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Það þýðir þó einnig að ef þú ætlar að búa til viðráðanlega íbúð þá verða lóðir líka að vera viðráðanlegar í verði.“

Þau sveitarfélög sem taka þátt í samningum við ríkið muni skuldbinda sig til að auka framboð lóða til samræmis við samningagerð.

Sigurður Ingi nefndi að ákveðin tala um fjárframlög ríkisins til uppbyggingarinnar hefði ekki verið birt í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar en segir hana þó vera í mótun.

„Í fjárlögunum er ekki búið að ákveða nákvæmlega þær fjárhæðir sem þarf. Við höfum samt tekið það til hliðar í varasjóð og munum samhliða þessari vinnu með sveitarfélögunum ákveða þá fjárupphæð,“ sagði Sigurður Ingi og tók fram að sú fjárhæð myndi birtast í síðasta lagi við aðra umræðu fjárlaga.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hóf umræður og spurði meðal annars hvað byggingariðnaðurinn sjálfur gæti ráðið við.

„Allir sem hafa reynt að fá tilboð í mannvirki eða jafnvel iðnaðarmann inn á heimilið þekkja að það er kerfislægt atriði sem þarf að ávarpa,“ sagði Dagur.

Sigurður Ingi sagði að mat stjórnvalda á þessum vanda væri að með langtímaáætlun myndi stöðugleiki færast í stækkun iðnaðarins.

„Ég hef rætt við fjölmarga aðila í byggingariðnaðinum og jú, það eru alls konar áskoranir sem þeir aðilar standa frammi fyrir. Eitt af því sem þeir sjá sem jákvætt er að nú sé langtímasýn um uppbyggingu fyrir næstu fimm árin og svo tíu. Fyrirtækin geti þá vaxið vitandi það að átaksverkefnin eru ekki til eins árs eða tveggja heldur að það sé vaxandi þörf öll þessi ár.“