Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra segir að þegar hafi verið brugðist við bráðabirgðaniðurstöðu ESA frá 2020 um meint brot ríkisins gegn reglum EES um umhverfismat. Fjallað hefur verið um málið í Fréttablaðinu. ESA hefur gefið ríkinu þrjá mánuði til að bregðast við.

„Ríkið hefur brugðist við. Unnið hefur verið að breytingum á lögum um fiskeldi, hollustuhætti og mengunarvarnir og umhverfismat framkvæmda og áætlana í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Drög að frumvarpi sem bregðast á við bráðabirgðaniðurstöðum ESA var kynnt í Samráðsgátt 15. desember og er á þingmálaskrá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra,“ segir Guðmundur Ingi í svari til Fréttablaðsins en spurt var hvers vegna ekki hefði verið brugðist við strax árið 2020 þegar bráðabirgðaniðurstaða ESA var birt. Hið sama kemur fram í svari við fyrirspurn til umhverfisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Guðmundur Ingi ítrekar mikilvægi þess að félagasamtök og almenningur geti tekið virkan þátt í stefnumótun og ákvörðunum sem varða umhverfi og náttúru, en meint brot íslenska ríkisins felast samkvæmt ESA í að útiloka almenning frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og ókleift sé að kæra þau. Guðmundur Ingi segir í svari til fréttastofu að hann hafi beitt sér fyrir því sem ráðherra að auka möguleika almennings og félagasamtaka til þátttöku.

„Meðal annars með því að þrefalda fjárframlög til rekstrar umhverfisverndarsamtaka. Að sama skapi tel ég afar mikilvægt að félagasamtök geti kært ákvarðanir stjórnvalda er varða umhverfismál til óháðs úrskurðaraðila og gerði meðal annars gangskör að því að flýta málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með styrkingu nefndarinnar á síðasta kjörtímabili. Þá tel ég mikilvægt að bregðast við athugasemdum ESA og lagði áherslu á það í embætti mínu sem umhverfis- og auðlindaráðherra,“ segir hann.

Fréttin hefur verið leiðrétt en ekki kom fram í fyrri útgáfu að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði svarað fyrirspurn blaðsins. Það gerðu þau með sama hætti og umhverfisráðuneytið. Fréttin var leiðrétt klukkan 08:06.