Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, hefur fallist á til­lögur sótt­varnar­læknis að nýrri reglu­gerð um sótt­varnir. Reglu­gerðin tekur gildi á mánu­daginn og verður í gildi í þrjár vikur, með fyrirvara um frekari herðingu eða slakanir eftir því sem líður á faraldurinn.

Eins og fram hefur komið skilaði Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varnar­læknir, ráðu­neytinu minnis­blaði með til­lögum um vægar af­léttingar innan­lands seint í gær­kvöldi. Á­fram verða 20 manna sam­komu­tak­markanir, tveggja metra regla og grímu­skylda í gildi innan­lands. Hertari að­gerðir verða á landa­mærum.

Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, segir að reglu­gerðin endur­spegli að Ís­land sé eina landið í Evrópu sem sé grænt sam­kvæmt matskvarða sótt­varnar­stofnunar Evrópu. Á sama tíma taki hún mið af út­breiðslu far­aldursins í löndunum í kringum okkur.

„Við gerum ráð fyrir því að verslanir, söfn, sviðs­listir, trúar-og lífs­skoðunar­fé­lög, séu allt að 150 manns, þar sem áður voru 100. Gerum ráð fyrir því að líkams­rækt sé heimild, með 50 prósent af leyfi­legum fjölda. Og að skemmti­staðir og krár verði með opnað og fái að hafa opið til 22 líkt og aðrir veitinga­staðir, með sætis­skyldu,“ segir Svan­dís.

Almennar fjöldatakmarkanir verða áfram 20 manns en með rýmri undantekningum en hingað til. Reglur um 2 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða óbreyttar. Heimilt verður að opna að nýju skemmtistaði, krár, spilasali og spilakassa að uppfylltum skilyrðum.

Fjöldatakmörk gesta í sviðslistum verða aukin úr 100 í 150 manns og trú- og lífsskoðunarfélögum verður heimilt að halda athafnir, þar með taldar útfarir, með 150 manns að hámarki. Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verður 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda og sama gildir um gesti á söfnum.

Heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal verða heimilaðar með skilyrðum. Ný reglugerð sem kveður á um þessar tilslakanir gildir til og með 3. mars næstkomandi.