Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur fallist á tillögur sóttvarnarlæknis að nýrri reglugerð um sóttvarnir. Reglugerðin tekur gildi á mánudaginn og verður í gildi í þrjár vikur, með fyrirvara um frekari herðingu eða slakanir eftir því sem líður á faraldurinn.
Eins og fram hefur komið skilaði Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, ráðuneytinu minnisblaði með tillögum um vægar afléttingar innanlands seint í gærkvöldi. Áfram verða 20 manna samkomutakmarkanir, tveggja metra regla og grímuskylda í gildi innanlands. Hertari aðgerðir verða á landamærum.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að reglugerðin endurspegli að Ísland sé eina landið í Evrópu sem sé grænt samkvæmt matskvarða sóttvarnarstofnunar Evrópu. Á sama tíma taki hún mið af útbreiðslu faraldursins í löndunum í kringum okkur.
„Við gerum ráð fyrir því að verslanir, söfn, sviðslistir, trúar-og lífsskoðunarfélög, séu allt að 150 manns, þar sem áður voru 100. Gerum ráð fyrir því að líkamsrækt sé heimild, með 50 prósent af leyfilegum fjölda. Og að skemmtistaðir og krár verði með opnað og fái að hafa opið til 22 líkt og aðrir veitingastaðir, með sætisskyldu,“ segir Svandís.
Almennar fjöldatakmarkanir verða áfram 20 manns en með rýmri undantekningum en hingað til. Reglur um 2 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða óbreyttar. Heimilt verður að opna að nýju skemmtistaði, krár, spilasali og spilakassa að uppfylltum skilyrðum.
Fjöldatakmörk gesta í sviðslistum verða aukin úr 100 í 150 manns og trú- og lífsskoðunarfélögum verður heimilt að halda athafnir, þar með taldar útfarir, með 150 manns að hámarki. Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verður 150 manns með hliðsjón af fermetrafjölda og sama gildir um gesti á söfnum.
Heilsu- og líkamsræktarstöðvar mega opna búningsaðstöðu að nýju og æfingar í tækjasal verða heimilaðar með skilyrðum. Ný reglugerð sem kveður á um þessar tilslakanir gildir til og með 3. mars næstkomandi.