Lög­reglu verða veittar stór­auknar heimildir til að safna upplýsingum og hafa eftir­lit með al­menningi og til­teknum ein­stak­lingum án þess að um rann­sókn til­tekins saka­máls sé að ræða, sam­kvæmt drögum að frum­varpi dóms­mála­ráð­herra sem nú er til kynningar í sam­ráðs­gátt stjórn­valda.

Með frumvarpinu er ríkis­lög­reglu­stjóra falið að starf­rækja rann­sóknar­lög­reglu­deild og greiningar­deild sem fari með það hlut­verk að koma í veg fyrir og rann­saka land­ráð, brot gegn stjórn­skipan ríkisins og æðstu stjórn­völdum.

Frumvarpið lýtur þó ekki eingöngu að mögulegum landráðum eða brotum gegn æðstu stjórn ríkisins heldur gerir það einnig ráð fyrir fyrirbyggjandi eftirliti lögreglu vegna mögulegrar skipulagðrar botastarfsemi og eftirliti með einstaklingum sem sérgreind hætta fyrir almannaöryggi kann að stafa af.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að verið sé að bregðast við ákalli vegna aukinna umsvifa skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi.

„Lögreglan hefur varað við þessu mjög lengi. Til þess að lögreglan geti haldið uppi eðlilegu samstarfi við lögregluyfirvöld erlendis þarf hún víðtækari heimildir til að geta fylgst með mögulegum brotamönnum,“ segir hann. Verið sé að færa heimildirnar í átt til nágrannalandanna.

„Heimildir lögreglu eru í dag mjög takmarkaðar, þær miðast við að grunur sé um ákveðið brot.“

„Heimildir lögreglu eru í dag mjög takmarkaðar, þær miðast við að grunur sé um ákveðið brot. Þannig að þegar upplýsingar koma frá erlendum lögregluyfirvöldum um að hingað sé að koma fólk sem sé undir eftirliti þar, þá eru hendur lögreglunnar hér bundnar. Það sama á við um upplýsingagjöf okkar til erlendra yfirvalda,“ segir ráðherra

Myndavélaeftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna

Verði frum­varpið að lögum verður lög­reglu heimilt að nýta allar þær upp­lýsingar sem hún býr yfir eða aflar við fram­kvæmd al­mennra lög­gæslu­starfa og frum­kvæðis­verk­efna, þar á meðal sam­skipti við upp­ljóstrara, eftir­lit á al­manna­færi og vöktun vef­síðna sem opnar eru al­menningi.

Í greinar­gerð með frum­varpinu kemur fram að eftir­lit á al­manna­færi fari ekki síst fram fyrir til­stuðlan eftir­lits­mynda­véla og fram kemur að í bí­gerð sé að efla kerfi þeirra til muna með auknum fjölda mynda­véla, þar á meðal véla sem lesið geti og greint skráningar­númer bif­reiða.

Um þetta segir í greinar­gerð að meðal annars sé átt við eftir­lit lög­reglu „á skil­greindum svæðum þar sem talin er aukin hætta á af­brotum og þar sem lög­regla hefur vit­neskju eða vís­bendingu um að ein­staklingar með tengsl við skipu­lögð brota­sam­tök komi saman, til dæmis í ná­grenni við fé­lags­heimili slíkra sam­taka eða önnur af­mörkuð svæði.“

Fram kemur einnig að eftir­lit sam­kvæmt um­ræddu á­kvæði skuli þó á­vallt vera al­menns eðlis og beinast að til­teknu svæði eða ó­af­mörkuðum hópi fólks.

„Við slíkt al­mennt eftir­lit getur þó komið til þess að lög­regla telji þörf á að veita til­teknum ein­stak­lingi eða ein­stak­lingum nánari at­hygli í skamman tíma, til dæmis til að stað­reyna grun um af­brot. Er þá lög­reglu heimilt að við­hafa tíma­bundið og ó­slitið eftir­lit með ein­stak­lingi sem jafn­framt fellur undir al­mennt eftir­lit sam­kvæmt á­kvæði þessu,“ segir í at­huga­semd með á­kvæðinu og svo er tekið dæmi:

„Hér er meðal annars verið að vísa til til­vika er lög­regla verður vör við grun­sam­lega hátt­semi í eftir­lits­mynda­vél og fylgir í kjöl­farið ein­stak­lingi eftir um skamman tíma.“

„Hér er meðal annars verið að vísa til til­vika er lög­regla verður vör við grun­sam­lega hátt­semi í eftir­lits­mynda­vél og fylgir í kjöl­farið ein­stak­lingi eftir um skamman tíma í eftir­lits­mynda­véla­kerfi til að stað­reyna eða úti­loka grun um af­brot. Hið sama gildir er lög­regla við­hefur eftir­lit á til­teknu svæði, hvort sem það er fram­kvæmt af ein­kennis­klæddum eða ó­ein­kennis­klæddum lög­reglu­mönnum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Geta veitt fólki eftirför og tekið af því myndir og kvikmyndir

Auk þess að tryggja lög­reglu laga­heimild til framan­greinds eftir­lits með al­menningi og eftir at­vikum með til­teknum grun­sam­legum ein­stak­lingi í skamman tíma, er kveðið á um heimild lög­reglu til að hafa eftir­lit með til­teknum ein­stak­lingi, um lengri tíma, hafi hún upp­lýsingar um að við­komandi ein­stak­lingur eða hópur ein­stak­linga hafi tengsl við skipu­lagða brota­starf­semi eða af þeim kunni að stafa sér­greind hætta fyrir al­manna­öryggi.

Í slíkum til­vikum geti lög­regla fylgst með ferðum hans á al­manna­færi eða öðrum stöðum sem al­menningur á að­gang að og jafn­vel veitt við­komandi eftir­för á milli staða.

„Er hér um að ræða að­gerð sem al­mennt er nefnd skygging og hefur það að mark­miði að stað­reyna grun um af­brot,“ segir í at­huga­semdum með um­ræddu á­kvæði frum­varpsins.

Fram kemur meðal annars að lög­regla muni hafa heimild til að taka ljós­myndir og kvik­myndir án þess að þeir sem í hlut eigi viti af því.

Í frumvarpinu segir að eftir­lit þetta skuli aldrei vera ítar­legra en nauð­syn­legt sé hverju sinni og lög­reglu beri að gæta að því að ekki sé gengið nær frið­helgi við­komandi en til­efni sé til hverju sinni.

Hætta af fólki sem aðhyllist öfgakennda hugmyndafræði

Skil­yrði þess að viðhafa megi umrætt eftirlit er að lög­reglan hafi upp­lýsingar um að við­komandi hafi tengsl við skipu­lögð brota­sam­tök eða hætta stafi af honum fyrir al­manna­öryggi. Tekin eru dæmi um ein­stak­ling sem sýnt er fram á að hafi tengsl við al­þjóð­leg hryðju­verka­sam­tök eða sem vís­bending er um að hætta stafi af vegna þess að hann að­hyllist öfga­kennda hug­mynda­fræði sem vitað er að leitt geti af sér fram­kvæmd of­beldis- og voða­verka.

„Lög­regla verður því að búa yfir til­greinan­legum upp­lýsingum sem veita henni vís­bendingu um slíkt,“ segir í at­huga­semdunum og þess getið að slíkar upp­lýsingar geti lög­regla fengið ýmist við al­menn störf lög­reglu eða vegna á­bendinga til dæmis frá al­mennum borgurum, upp­ljóstrara eða er­lendum lög­gæslu­yfir­völdum.

Þá verði að gera þá kröfu að lög­regla reyni eftir mesta megni að stað­reyna upp­lýsingar áður en á­kvörðun um eftir­lit verði tekin og ein­göngu verði að­hafst ef upp­lýsingar séu taldar á­reiðan­legar.

Í frum­varpinu segir að með framan­greindum skil­yrðum sé gildis­svið á­kvæðisins þrengt veru­lega og því verði þannig ekki beitt við hefð­bundnar að­gerðir í þágu af­brota­varna heldur að­eins ef um er að ræða skipu­lagða brota­starf­semi eða önnur al­var­leg af­brot sem hætta er á að verði framin.

Fæstir upplýstir um að þeir hafi sætt eftirliti

Að sögn ráðherra er gert ráð fyrir miklu eftirliti með þessum heimildum. „Við erum líka að auka við eftirlitið með störfum lögreglu, það þarf að fylgja þessu. En við verðum að bera traust til okkar lögreglu að fara með svona vald af mikilli varfærni og af gefnu tilefni.“

Samkvæmt frumvarpinu verður eftirlit með hinum forvirku rannsóknum í höndum nefndar um eftir­lit með lög­reglu en þó að­eins þannig að einungis ber að tilkynna nefndinni um eftirlit sem hefur verið hætt vegna þess að enginn grunur sé lengur fyrir hendi um yfir­vofandi af­brot. Nefndin getur þá tekið um­rætt eftir­lit til skoðunar. Geri nefndin það og komist hún að þeirri niður­stöðu að eftir­litið hafi ekki verið í sam­ræmi við lög, eða við­komandi hafi sætt eftir­liti að ó­sekju getur nefndin beint því til lög­reglu­stjóra að til­kynna við­komandi um að hann hafi sætt eftir­liti.

Að öðru leyti virðist þeim sem sætt hafa eftirliti ekki gert sérstaklega viðvart um það, hvorki meðan á eftirliti lögreglu stendur né eftir að því lýkur, nema eftirlitsnefnd lögreglu hafi verið gert viðvart um málið, hún ákveði að taka aðgerðir lögreglu til skoðunar og komist að þeirri niðurstöðu að eftirlitið hafi ekki samræmst lögum eða viðkomandi vaktaður af lögreglu að ósekju.

Heimild til upplýsingaöflunar í miðlægan grunn

Samkvæmt frumvarpinu verður rannsóknardeild ríkislögreglustjóra sem rannsaka á hættu á landráðum og brotum gegn æðstu stjórn ríkisins, einnig falið að sinna mati á hættu á hryðju­verkum í þágu af­brota­varna á lands­vísu meðal annars með rekstri mið­lægs gagna­grunns.

Eins og fyrr greinir er kveðið á um fjöl­þætta mögu­leika lög­reglunnar til öflunar upp­lýsinga sem fara myndu í hinn mið­læga gagna­grunn. En í frum­varpinu er einnig kveðið á um heimild lög­reglunnar til að afla upp­lýsinga, þar á meðal per­sónu­upp­lýsinga, hjá öðrum stjórn­völdum, stofnunum og opin­berum hluta­fé­lögum ef upp­lýsingarnar eru nauð­syn­legar og til þess fallnar að hafa veru­lega þýðingu fyrir starf­semi hennar í tengslum við að rann­saka eða af­stýra brotum gegn land­ráða­kafla al­mennra hegningar­laga og á­kvæða sem varða brot gegn stjórn­skipan ríkisins. Verður við­komandi stjórn­valdi, stofnun eða hluta­fé­lagi skylt að verða við slíkri beiðni.

Heimild til að haldleggja gögn og muni

Þá veitir frumvarpið lögreglu heimild til haldlagningar á munum eða gögnum í því skyni að koma í veg fyrir brot gegn öryggi ríkisins. Um er að ræða muni og gögn í vörslum þriðja aðila, svo sem banka eða fjármálastofnanna.

„Með ákvæði þessu verður lögreglu þannig gert kleift að afla nauðsynlegra upplýsinga hjá þriðja aðila óháð þagnarskylduákvæðum í lögum,“ segir í greingargerðinni og að í framkvæmd megi ætla að heimildin komi til greina þegar lögregla hafi vitneskju um að tiltekinn einstaklingur hafi tengsl við alþjóðleg hryðjuverkasamtök. Upplýsingar um fjármagnshreyfingar sem tengist viðkomandi geti gagnast við að staðfesta slíka vitneskju.

Þessa heimild getur lögregla eingöngu nýtt að fengnum úrskurði dómara og mun þetta eina eftirlitsheimildin sem kveðið er á um í frumvarpinu, sem afla þarf dómsúrskurðar fyrir.

Ráðherra treystir lögreglunni vel fyrir heimildunum

Í greinargerð með frumvarpinu er viðurkennt að efni frumvarpsins kunni að hafa áhrif á og skerða friðhelgi einkalífs þeirra borgara sem munu sæta aðgerðum lögreglu á sviði afbrotavarna. „Við samningu frumvarpsins var því sérstaklega gætt að því að ákvæði þess uppfylli þau skilyrði sem 71. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um og varða skerðingu á einkalífi manna,“ segir í greingargerðinni.

Aðspurður segir Jón lögreglunni vel treystandi fyrir þessum heimildum.

„Þetta er mikill akkilesarhæll í samstarfi við lögregluyfirvöld erlendis hvað heimildir eru þröngar hér á landi. Í þessu breytta umhverfi skipulagðrar glæpastarfsemi, sem virðir engin landamæri, þá er þetta mjög mikilvægt atriði,“ segir hann.

„Staðreyndin blasir við okkur að hér á landi eru að skjóta rótum skipulögð glæpastarfsemi, við því verðum við að bregðast.“

„Staðreyndin blasir við okkur að hér á landi eru að skjóta rótum skipulögð glæpastarfsemi, við því verðum við að bregðast. Þetta er ekkert bundið við Ísland, þetta er miklu stærra mengi.“

Lögreglustjórar gefi fyrirmæli um vopnaburð

Þá er að lokum í frum­varps­drögum ráð­herra kveðið á um vopna­burð lög­reglunnar og tekið af skarið um að lög­reglu­stjórar geti gefið fyrir­mæli um að lög­reglu­menn skuli vopnast í sam­ræmi við reglur þar um. Ráð­herra setji nánari reglur um vald­beitingu lög­reglu­manna og með­ferð og notkun vald­beitingar­tækja og vopna hjá lög­reglu en ríkis­lög­reglu­stjóri setji verk­lags­reglur og leið­beiningar til lög­reglu­liða varðandi við­búnað með vopnum.

Ekki er um efnis­legar breytingar að ræða á þeim reglum sem gilda um heimil vopn og hvernig með­ferð lög­reglu á þeim er háttað, að því er fram kemur í frumvarpinu, heldur fyrst og fremst verið að veita reglum um vopnaburð lögreglu stoð í lög­reglu­lögum.

Býst við samstöðu um málið

Jón er bjartsýnn að koma frumvarpinu í gegnum ríkisstjórn og fá það samþykkt á Alþingi.

„Það væri mikil ábyrgð þeirra sem vilja takmarka störf lögreglu þannig að hún geti ekki sinnt því að tryggja öryggi borgaranna þegar að þessari alvarlegu brotastarfsemi kemur.“

„Ég held að þegar fólk kynnir sér hversu alvarleg staðan er orðin í brotastarfsemi á Íslandi og áttar sig á því hversu mikilvægt það er að lögreglan geti unnið með víðtækari heimildum þegar að þessum málaflokki kemur þá hef ég ekki áhyggjur af því að það náist ekki um það samstaða. Það væri mikil ábyrgð þeirra sem vilja takmarka störf lögreglu þannig að hún geti ekki sinnt því að tryggja öryggi borgaranna þegar að þessari alvarlegu brotastarfsemi kemur.“

Frum­varps­drögin voru birt í sam­ráðs­gátt stjórn­valda í dag og er frestur til að senda inn um­sögn um þau gefinn til 22. mars næst­komandi.