Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist ekki telja ástæðu til að óttast að lögreglumenn misnoti rafbyssur hér á landi. Amnesty International hefur gert athugasemdir við misnotkun rafbyssa af lögreglufólki í Bandaríkjunum en samkvæmt Jóni hafa rafbyssur verið notaðar í Evrópu með góðum árangri.
„Árangurinn mælist í því að líkamsmeiðsli hjá þeim sem verið er að handtaka og eins hjá lögreglumönnum er miklu minni eftir að þetta kom til,“ segir Jón. „Þannig að menn þurfa ekki að takast á og þetta getur komið í veg fyrir líkamstjón hjá báðum aðilum.“
Jón tekur fram að engar ákvarðanir hafi enn verið teknar í málinu og enn sé verið að skoða hvort rafbyssur verði teknar upp og þá hver útfærslan verði. Á þessum tíma máls getur Jón ekki sagt hvort rafbyssur yrðu staðalbúnaður hjá lögreglufólki eða leyfisskyldur búnaður, líkt og skotvopn.
Í þessum mánuði fundar Jón með lögreglustjórum og Landssambandi lögreglumanna þar sem farið verður yfir stöðuna áður en ákvörðun verður tekin.
Nýtast ekki gegn skotvopnum
Í fréttatilkynningu frá Landssambandi lögreglumanna segir að umræða um rafbyssur myndu ekki nýtast í málum þar sem árásaraðili er vopnaður skotvopni.
Samkvæmt Jóni yrðu settar sérstakar reglur um notkun rafbyssa og að rafbyssur gætu nýst vel í ýmsum tilvikum þar sem kylfur eða skotvopn eru ekki viðeigandi valdbeitingartæki.
„Ef þetta kæmi til munu auðvitað gilda mjög skýrar verklagsreglur, alveg eins og með aðra valdbeitingu lögreglu,“ segir Jón.
„Það eru mjög mörg tilvik sem koma upp í vopnaburði til dæmis gagnvart lögreglu sem eru meira en byssur,“ segir Jón. „Ég held að útköll sérsveitar lögreglumanna á síðasta ári vegna vopnamála hafi verið um þrjú hundruð, þar af voru hátt í eitt hundrað þar sem skotvopn komu til sögu og um tvö hundruð þar sem voru hnífar eða önnur vopn.“
Rafbyssur gætu nýst vel í tilvikum þar sem hnífar eða önnur vopn koma við sögu og þar sem brotamenn hafa líkamlega yfirburði fram yfir lögregluþjón, samkvæmt Jóni.
Auknar rannsóknarheimildir og fjárframlög
Fjárframlög til lögreglumála voru aukin nokkuð á þessu ári, segir Jón, og mikil þjálfun stendur nú yfir á sérþjálfuðum lögreglumönnum, til rannsókna og á öðrum sviðum. Einnig verður fjölgað í lögregluliðum þegar líður á árið.
„Öll þessi verkefni sem við erum að tala um hvort sem það eru þessi sértæku rannsóknarverkefni eins og í tölvuglæpum, kynferðisbrotum eða skipulagðri afbrotastarfsemi, þetta krefst mikillar sérþekkingar og þjálfunnar,“ segir Jón. „Fólk er ekki tekið beint af götunni í slík störf.“
Ákall er innan lögreglunnar um að fjölga þurfi lögregluþjónum, að sögn Jóns. „Við erum að svara því ákalli að einhverju leiti en ég tel að það þurfi að ganga jafnvel lengra í þeim efnum þegar fram líða stundir, sérstaklega á þessum viðkvæmu sviðum,“ segir Jón.
Jón segir að bregðast þurfi við aukinni skipulagðri brotastarfsemi hér á landi, til dæmis með auknum og víðtækari rannsóknarheimildum lögreglu. Hann segir lagabreytingar fyrir auknar heimildir vera í vinnslu.
Sem stendur virðist ekki vera í skoðun að auka við öryggisbúnað lögreglufólks en Jón segir sjálfsagt að gera það ef lögregla telur að skortur sé á öryggisbúnaði.