Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra segist ekki telja á­stæðu til að óttast að lög­reglu­menn mis­noti raf­byssur hér á landi. Am­ne­sty International hefur gert at­huga­semdir við mis­notkun raf­byssa af lög­reglu­fólki í Banda­ríkjunum en sam­kvæmt Jóni hafa raf­byssur verið notaðar í Evrópu með góðum árangri.

„Árangurinn mælist í því að líkams­meiðsli hjá þeim sem verið er að hand­taka og eins hjá lög­reglu­mönnum er miklu minni eftir að þetta kom til,“ segir Jón. „Þannig að menn þurfa ekki að takast á og þetta getur komið í veg fyrir líkams­tjón hjá báðum aðilum.“

Jón tekur fram að engar á­kvarðanir hafi enn verið teknar í málinu og enn sé verið að skoða hvort raf­byssur verði teknar upp og þá hver út­færslan verði. Á þessum tíma máls getur Jón ekki sagt hvort raf­byssur yrðu staðal­búnaður hjá lög­reglu­fólki eða leyfis­skyldur búnaður, líkt og skot­vopn.

Í þessum mánuði fundar Jón með lög­reglu­stjórum og Lands­sam­bandi lög­reglu­manna þar sem farið verður yfir stöðuna áður en á­kvörðun verður tekin.

Nýtast ekki gegn skot­vopnum


Í frétta­til­kynningu frá Lands­sam­bandi lög­reglu­manna segir að um­ræða um raf­byssur myndu ekki nýtast í málum þar sem á­rása­r­aðili er vopnaður skot­vopni.

Sam­kvæmt Jóni yrðu settar sér­stakar reglur um notkun raf­byssa og að raf­byssur gætu nýst vel í ýmsum til­vikum þar sem kylfur eða skot­vopn eru ekki við­eig­andi vald­beitingar­tæki.

„Ef þetta kæmi til munu auð­vitað gilda mjög skýrar verk­lags­reglur, alveg eins og með aðra vald­beitingu lög­reglu,“ segir Jón.

„Það eru mjög mörg til­vik sem koma upp í vopna­burði til dæmis gagn­vart lög­reglu sem eru meira en byssur,“ segir Jón. „Ég held að út­köll sér­sveitar lög­reglu­manna á síðasta ári vegna vopna­mála hafi verið um þrjú hundruð, þar af voru hátt í eitt hundrað þar sem skot­vopn komu til sögu og um tvö hundruð þar sem voru hnífar eða önnur vopn.“

Raf­byssur gætu nýst vel í til­vikum þar sem hnífar eða önnur vopn koma við sögu og þar sem brota­menn hafa líkam­lega yfir­burði fram yfir lög­reglu­þjón, sam­kvæmt Jóni.

Auknar rann­sóknar­heimildir og fjár­fram­lög


Fjár­fram­lög til lög­reglu­mála voru aukin nokkuð á þessu ári, segir Jón, og mikil þjálfun stendur nú yfir á sér­þjálfuðum lög­reglu­mönnum, til rann­sókna og á öðrum sviðum. Einnig verður fjölgað í lög­reglu­liðum þegar líður á árið.

„Öll þessi verk­efni sem við erum að tala um hvort sem það eru þessi sér­tæku rann­sóknar­verk­efni eins og í tölvu­glæpum, kyn­ferðis­brotum eða skipu­lagðri af­brota­starf­semi, þetta krefst mikillar sér­þekkingar og þjálfunnar,“ segir Jón. „Fólk er ekki tekið beint af götunni í slík störf.“

Á­kall er innan lög­reglunnar um að fjölga þurfi lög­reglu­þjónum, að sögn Jóns. „Við erum að svara því á­kalli að ein­hverju leiti en ég tel að það þurfi að ganga jafn­vel lengra í þeim efnum þegar fram líða stundir, sér­stak­lega á þessum við­kvæmu sviðum,“ segir Jón.

Jón segir að bregðast þurfi við aukinni skipu­lagðri brota­starf­semi hér á landi, til dæmis með auknum og víð­tækari rann­sóknar­heimildum lög­reglu. Hann segir laga­breytingar fyrir auknar heimildir vera í vinnslu.

Sem stendur virðist ekki vera í skoðun að auka við öryggis­búnað lög­reglu­fólks en Jón segir sjálf­sagt að gera það ef lög­regla telur að skortur sé á öryggis­búnaði.