„Það bárust af því fréttir nú rétt í þessu að á síðustu klukkustundum í embætti hafi fyrrverandi hæstvirtur umhverfisráðherra friðlýst jörðina Dranga í Árnesi. Þetta hafi gerst á föstudagskvöldi, þegar lyklaskipti fóru fram á laugardagsmorgni.“ Þetta fullyrti Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins á þingfundi fyrr í dag og vísaði í vestfirska vefmiðilinn Bæjarins besta.

Þingmaðurinn beindi fyrirspurn til nýs umhverfisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um málið og vildi vita hvort nýjum ráðherra væri kunnugt um þessa embættisfærslu svo skömmu fyrir lyklaskipti í ráðuneytinu.

Bergþór segir nýjum ráðherra fréttir

„Sú atvikalýsing sem þingmaðurinn lýsir hér eru fréttir fyrir mig. Ég er ekki búin að vera lengi í embætti og maður er að reyna að setja sig inn í mál eins fljótt og hægt er. Ég hafði eitthvað heyrt um friðlýsingarnar en þær áhyggjur sem þingmaðurinn vísar til eru eitthvað sem mér hafði ekki borist til eyrna,“ sagði nýr umhverfisráðherra í svari sínu.

„Sú atvikalýsing sem þingmaðurinn lýsir hér eru fréttir fyrir mig,“ sagði nýr umhverfisráðherra í svari sínu til Bergþórs.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Guðlaugur vísaði hins vegar til stjórnarsáttmálans um samkomulag stjórnarflokkana um bæði friðýsingar og málefni þjóðgarða, meðal annars hvað varðar samráð við heimamenn.

Friðlýsingin undirrituð 26. nóvember

Á vefmiðlinum Bæjarins besta kemur fram að Umhverfisstofnun hafi vísað tillögu um friðlýsingu Dranga til Umhverfis- og auðlindaráðherra til ákvörðunar hinn 26. nóvember síðastliðinn og að umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson hafi skrifað undir friðlýsinguna samdægurs.

Eva B. Sólan Hannesdóttir, formaður starfshóps um friðlýsingu Dranga og starfsmaður Umhverfisstofnunar, staðfestir þetta við hinn vestfirska miðil, en þar kemur einnig fram að fulltrúi Árneshrepps í starfshópnum hafi neitað að skrifa undir friðlýsinguna.

Friðlýsingin tekur gildi 13. desember samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Þingheimur tekur undir með Bergþóri

Eftir að óundirbúnum fyrirspurnum lauk stigu þingmenn stjórnarandstöðunnar, hver af öðrum í ræðustól og fordæmdu þessi vinnubrögð.

Fyrst steig í ræðustól, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Það hlýtur að valda hæstvirtum forseta áhyggjum nú þegar þing er nýhafið að eitthvað umdeildasta mál síðasta kjörtímabils að minnsta kosti á sviði umhverfismála hafi verið afgreitt, að því er virðist nánast í skjóli nætur, af einum ráðherra, þá reyndar í öðru embætti, algerlega án samráðs við þingið og þannig komið í veg fyrir einn af þeim fáu virkjanakostum sem höfðu komist í nýtingarflokk,“ sagði Sigmundur.

Logi Einarsson, tók undir þessi sjónarmið Miðflokksmanna og gagnrýni þeirra á embættisfærslu ráðherra.

„Síðasti hlekkurinn í atburðarrás sem hófst hér síðastliðið vor þegar ráðherrarnir fóru ríðandi um héruð til þess að borga og friðlýsa og kaupa sér velvild kjósenda í landinu,“ sagði formaður Samfylkingarinnar um málið.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Alveg óháð því hvað manni finnst um þessa friðlýsingu, þá verð ég að taka undir að þetta eru ótrúlega undarleg vinnubrögð og þau eru auðvitað bara svona síðasti hlekkurinn í atburðarás sem hófst hér síðastliðið vor þegar ráðherrarnir fóru ríðandi um héruð til þess að borga og friðlýsa og kaupa sér velvild kjósenda í landinu, þegar við í þinginu vorum nýbúin að samþykkja breytingar sem gerðu það að verkum að við takmörkuðum okkar möguleika að ferðast á kostnað ríkisins.“ sagði Logi.

Fleiri kvöddu sér hljóðs, meðal annarra Björn Leví Gunnarsson og Hanna Katrín Friðriksson.

Umræðan dreifði sér svo yfir á fleiri svið stjórnmálanna og samskipti þings og framkvæmdarvaldsins.

Fjármálaráðherra kveikir í umræðunni

„Það er enginn skortur á tækifærum þingsins til að veita stjórnarráðinu aðhald,“ sagði fjármálaráðherra sem blandaði sér í umræðuna og gagnrýndi Loga Einarsson fyrir fyrri fullyrðingar hans um fjáraustur ráðherrana rétt fyrir kosningar.

„Það er enginn skortur á tækifærum þingsins til að veita stjórnarráðinu aðhald.“

Logi vísaði þessu algerlega á bug og skorar á ríkisstjórnina að leggja fram lista um þau verkefni sem stjórnin réðist í rétt fyrir kosningar, auk kostnaðar, yfirlita úr akstursbókum og fleira.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar kvaddi sér einnig hljóðs og hafnaði því að þingið hefði næg tækifæri til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

„Það er bara ekki rétt. Það var boðað til kosninga, við fórum svo í sumarfrí og þingið kom ekki saman fyrr en eftir dúk og disk. Þetta voru fleiri, fleiri, fleiri, fleiri mánuðir sem þingið hafði einmitt ekki tækifæri til þess að hafa eðlilegt aðhald framkvæmdarvaldinu,“ sagði Sigmar.