Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, mun ekki getað fundað með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar í fyrramálið eins og hafði verið tilkynnt um.

Ástæða þess er að hann þarf að fara á fund norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn fyrr en hann hafði áætlað. Guðmundur Ingi á að stýra fundi nefndarinnar í vikunni. Greint er frá á RÚV.

Sólveig Anna birti í gærkvöldi bréf sem hún hafði sent Guðmundi Inga þess efnis að hún óskaði eftir fundi strax í fyrramálið vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Hann svaraði því og ætlaði að hitta hana en það breyttist í dag þegar flugi hans út var seinkað vegna veðurs og því þurfti hann að fara fyrr til að ná fundinum.

Ráðherra kemur heim á miðvikudag. Samkvæmt vef RÚV hefur það ekki komið til tals að Sólveig Anna fundi með öðrum ráðherra í fyrramálið.

Sólveig Anna hefur lagt mikla áherslu á að fundurinn fari fram í fyrramálið þar sem fyrirtaka í dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað til að fá kjörskrá Eflingar afhenda fer fram síðar á morgun og annað kvöld mun Efling síðan tilkynna úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum.

„Ég undirstrika við þig að um er að ræða grafalvarlegt fordæmisgefandi mál sem snýr að lögmæti stofnana aðila vinnumarkaðarins, grundvallaréttindum vinnandi fólks og því trausti sem verkafólki verður unnt að bera til opinbers ramma vinnumarkaðsmála á Íslandi til framtíðar,“ sagði Sólveig Anna meðal annars í bréfinu sem hún sendi Guðmundi Inga í gær.

Í samtali við Vísi segir Sólveig Anna að Guðmundur Ingi hefði svarað kallinu fyrr í dag.

„Mér barst svar fyrr í dag og fer á fund ráðherra ásamt félögum mínum í fyrramálið.“

Líkt og greint hefur verið frá ákvað Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í liðinni viku að stíga inn í kjaradeilur aðila vinnumarkaðarins með því að leggja fram miðlunartillögu. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd og segja margir tillöguna lagða fram of snemma í deilunum.

Fréttin var uppfærð eftir að plön ráðherra breyttust og hann frestaði fundinum. Uppfærð klukkan 18:48 þann 29.1.2023.