Skýrslan um með­ferðar­heimilið á Lauga­landi sem gerð var af Gæða- og eftir­lits­stofnun með­ferðar­mála (GEV) kom út á mið­viku­dag.

Niður­staða skýrslunnar er að yfir­gnæfandi meiri­hluti fyrr­verandi vist­barna hafi upp­lifað of­beldi og að eftir­lits­skylda barna­verndar­yfir­valda brást, þrátt fyrir til­kynningar og á­bendingar.

„Maður er sleginn yfir því að þrátt fyrir að það hafi verið látið vita að það væri ekki allt í lagi, þá hafi eftir­litið brugðist. Það hefur bitnað á þessum stúlkum sem þarna voru. Ekki bara á þessum tíma, heldur alla þeirra ævi. Maður heyrir vel á við­tölum við þær að þetta eltir þær enn í dag. Það er því mikil­vægt að þessi rann­sókn hafi verið gerð og að hún stað­festi það sem þær segi,“ segir Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, fé­lags- og vinnu­markaðs­ráð­herra.

Guð­mundur segir að kerfið eigi að virka þannig að þegar á­bendingar berast þá eigi að rann­saka þær og að með þeim breytingum sem áttu sér stað um ára­mótin, þegar eftir­lit með barna­vernd var fært frá Barna­verndar­stofu til Gæða- og eftir­lits­stofnunar, sé búið að koma í veg fyrir að það gerist aftur sem þarna gerðist.

„Þarna er komin ein stofnun sem er hægt að vísa málum til, en það er mjög mikil­vægt að stofnunin hafi burði til þess að fara í heim­sóknir og gera at­huganir af handa­hófi og á sama tíma að bregðast við þeim kvörtunum sem koma.“

Guð­mundur segir að á næstu árum muni þau vonandi sjá hversu um­fangs­mikið verk það verður fyrir Gæða- og eftir­lits­stofnun með­ferðar­mála að taka við kvörtunum og hvernig þau greiði úr þeim og hvernig ráðu­neytið getur lið­sinnt stofnuninni við það.

Spurður út í gagn­rýni kvenna sem voru vistaðar á Lauga­landi á gerð skýrslunnar og sam­ráði við þær, segir Guð­mundur að hann vísi þeim kvörtunum til Gæða- og eftir­lits­stofnunar með­ferðar­mála en ef hann fái form­lega kvörtun til ráðu­neytisins muni þau taka hana til skoðunar.

„En eins og ég skildi það þá vildu þau gefa þeim sem unnu að skýrslu­gerðinni eins mikið rými til að vinna hana og þau mögu­lega gætu. Þegar ég horfi á skýrsluna finnst mér hún um­fangs­mikil og kafa vel ofan í þetta mál og sé ekki betur en að hún hafi verið vel unnin.“

Konunum hefur verið boðið að fara til Bjarkar­hlíðar. Spurður hvort ríkið sjái fyrir sér að taka þátt í niður­greiðslu sál­fræði­að­stoðar fyrir þessar konur, segir ráð­herra að á­kveðið hafi verið í sam­ráði við mennta- og barna­mála­ráðu­neytið að þegar skýrslan kæmi út myndi konunum verða vísað eitt­hvert.

„Það var við­búið að hún myndi vekja upp erfiðar minningar og draga þeirra reynslu upp á yfir­borðið. Fyrsta skref er að segja þeim að hægt sé að leita til Bjarkar­hlíðar en ég er opinn fyrir því að skoða önnur úr­ræði ef ekki er hægt að að­stoða þær þar eða í öðrum úr­ræðum sem ráðu­neytið styrkir.“