Dómsmálaráðuneytið hefur ekki svarað erindi Félags atvinnurekenda, FA, um lögmæti áfengisverslunar á netinu; átta vikur eru frá því að félagið óskaði eftir leiðbeiningum frá stjórnvöldum.

„Fyrirtækin eru í mjög óþægilegri óvissu, stjórnvöldum ber skylda til að leiðbeina þeim en gera það ekki. Það er ekki gott,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Í ítrekunarbréfi sem félagið sendi ráðuneytinu í vikunni segir að brýnt sé að svara erindinu. Innan raða FA séu bæði fyrirtæki sem eru hikandi við að fara inn á markaðinn af ótta við kæru frá ÁTVR og fyrirtæki sem vilja bregðast við samkeppninni frá netverslunum sem eru þegar starfandi.

„Að mati félagsins er útilokað að gefa þessum fyrirtækjum þau svör að þau verði að bíða niðurstöðu þeirra málaferla sem ÁTVR stendur nú fyrir, enda geta þau tekið einhver ár,“ segir í bréfinu.