Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hefur lokið endur­skoðun á reglum um sótt­kví og ein­angrun vegna Co­vid-19 og er niður­staðan sú að stytta megi ein­angrun smitaðra og sótt­kví þeirra sem hafa verið út­settir fyrir Co­vid, án þess að auka hættu á út­breiðslu veirunnar.

Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, hefur gert breytingu á reglu­gerð í sam­ræmi við til­lögur Þór­ólfs.

„Að upp­fylltum skil­yrðum getur tími í ein­angrun orðið skemmstur sjö dagar. Al­menn krafa um dvöl í sótt­kví styttist úr sjö dögum í fimm, að því gefnu að henni ljúki með nei­kvæðri niður­stöðu úr PCR prófi. Ef ein­stak­lingur undir­gengst ekki PCR próf til að ljúka sótt­kví þarf hann að sæta henni í 14 daga. Reglu­gerðin tekur gildi frá og með 29. októ­ber og taka breyttar reglur einnig til þeirra sem þegar eru í sótt­kví eða ein­angrun,“ segir á vef stjórnar­ráðsins.

„Lengst af í CO­VID-19 far­aldrinum hafa á­kvæði um ein­angrun þeirra sem greinast CO­VID-19 verið á þann veg að ein­angrunin skuli vara í 14 daga frá greiningu og að sjúk­lingurinn skuli hafa verið ein­kenna­laus í a.m.k. 7 daga áður en ein­angrun er af­létt. Heimilt hefur þó verið að stytta ein­angrunina í 10 daga hjá al­mennt hraustum ein­stak­lingum sem eru ein­kenna­lausir í 72 klst,“ segir í minnis­blaðiÞór­ólfs til rá­herra.

„Sömu­leiðis hafa kvaðir um sótt­kví verið á þann veg að út­settur ein­stak­lingur skuli dvelja í sótt­kví í 14 daga sem stytta má í 7 daga með nei­kvæðu PCR prófi á 7. degi. Ef út­setning ein­stak­lings er hins vegar metin minni­háttar, er honum heimilt að við­hafa smit­gát sem felur í sér að hann getur mætt í vinnu eða skóla en skylt að mæta í hrað­próf á fyrsta og fjórða degi smit­gátar,“ segir þar enn fremur.

Sé niður­staða prófanna nei­kvæð er smit­gát hætt. Þetta fyrir­komu­lag hefur gefist vel til að hefta út­breiðslu CO­VID-19 en um 10% allra þeirra sem settir eru í sótt­kví greinast með veiruna. Hins vegar er hlut­fall barna yngri en 12 ára í sótt­kví sem greinast með veiruna hærra eða um 15-20%. Hlut­fall þeirra sem eru í smit­gát er á hinn bóginn um 1%.

Enginn greinar­munur verður gerður á börnum og full­orðnum hvað varðar með­höndlun út­settra sem og bólu­settra og óbólu­settra.