Dóms­mála­ráð­herra og ráðu­neytis­stjóri dóms­mála­ráðu­neytisins hafa beðist form­lega af­sökunar vegna fram­göngu ráðu­neytisins gagn­vart Birni Jóni Braga­syni og Sigurði K. Kol­beins­syni í máli fyrr­verandi ríkis­lög­reglu­stjóra, Haraldar Johannes­sen.

„Í sam­ræmi við niður­stöðu um­boðs­manns Al­þingis og erindi yðar til ráðu­neytisins, telur ráðu­neytið rétt að rétta hlut yðar með því að biðjast af­sökunar á því hvernig til tókst varðandi bréfa­skriftir em­bættis ríkis­lög­reglu­stjóra til yðar,“ segir í bréfinu.

„Nú er þessu máli loksins lokið,“ segir Björn Jón sem fékk bréfið af­hent í dag.

Björn Jón segir að málinu sé lokið af hans hálfu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Bréf umboðsmanns léttir

Fyrr á þessu ári komst Kjartan Bjarni Björg­vins­son, settur um­­­boðs­mað­ur Al­þing­is, að því að bréf sem Haraldur, sem þá var rík­is­lög­regl­u­­stjór­i, sendi til Björns Jóns Brag­a­­son­ar og Sig­urð­ar K. Kol­beins­­son­ar hafi stang­ast á við skyld­ur sem hvíld­u á em­bætt­i hans og að­­gerð­ir dóms­­mál­a­ráð­u­neyt­is­ins við þeim ó­­við­un­and­i.

„Þegar álit um­boðs­manns loksins kom þá var það mikill léttir en hann lagði að ráðu­neytinu að rétta hlut okkar Sigurðar með ein­hverjum hætti. Ég vildi aldrei fara fram á neinar fé­bætur heldur vildi ég að ráðu­neytið viður­kenndi að það hefði átt að grípa til ein­hverra að­gerða því það hefur eftir­lits- og yfir­stjórnunar­heimildir með em­bætti ríkis­lög­reglu­stjóra,“ segir Björn Jón í sam­tali við Frétta­blaðið.

Skortur á afsökunum frá stofnunum

Hann segir að það hafi blasið við að það þyrfti að biðja þá báða af­sökunar.

„Ég held það horfi til varnaðar að stofnanir séu til­búnar að biðjast af­sökunar því það hefur verið skortur á því,“ segir Björn Jón.

Er þessu máli þá lokið af þinni hálfu?

„Já, ég vil engar skaða­bætur eða neitt slíkt og ég tek hattinn ofan fyrir ráð­herra og ráðu­neytis­stjóranum að hafa haft mann­dóm til þess að biðja mig af­sökunar á þessu.“

Hann segir að það sem gerðist í þessu máli, sem hefur verið ítar­lega greint frá, er að fyrr­verandi ríkis­lög­reglu­stjóri setti mál í lög­reglu­búning sem átti ekki undir lög­reglunni heyra.

„Þetta er í raun brott­rekstrar­sök em­bættis­manns finnst mér, og þá sér­stak­lega yfir­manns lög­reglu, sem fer svona að,“ segir Björn Jón sem er lög­lærður sjálfur og segir að það hafi ef­laust haft mikið að segja í þessu máli því að margir al­mennir borgarar hefðu hlýtt ríkis­lög­reglu­stjóra og talið að ein­fald­lega hefði verið að kalla þau til yfir­heyrslu.

„Þetta er vald­níðsla sem á ekki að eiga sér stað og það er mjög mikil­vægt að fólk leiti réttar síns því öðru­vísi er ekki hægt að bæta kerfið,“ segir hann að lokum.

Boðaði tvímenningana á fund

For­sögu málsins má rekja til desem­ber­mánaðar 2017 þegar tví­menningarnir Björn Jón og Sigurður fengu sím­tal frá manni sem kynnti sig sem fyrr­verandi rann­sóknar­lög­reglu­mann.

Til­efni sím­talsins var að boða þá til fundar við sig, ríkis­lög­reglu­stjóra og Öldu Hrönn Jóhanns­dóttir, fyrr­verandi sak­sóknara efna­hags­brota­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra. Fundar­boðið á­réttaði maðurinn með tölvu­pósti frá net­fangi lög­reglunnar.

Á­stæðan væri um­fjöllun Björns Jóns í bókinni Gjald­eyris­eftir­litið, frá árinu 2016, um fund sem haldinn var í innan­ríkis­ráðu­neytinu árið 2011 og fjallaði um fram­tíð efna­hags­brota­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra þar sem flestir starfs­menn deildarinnar voru farnir yfir til sér­staks sak­sóknara.

Dómsmálaráðherra á þeim tíma var Sigríður Á. Andersen.

Nánar er fjallað um málið í fréttunum hér að neðan.