Arn­ar Þór Jóns­son, dóm­ari við Héraðsdóm Reykja­vík­ur, segist hafa með dóm- og lögfræðistörfum sínum verið í vélarrúmi þjóðarskútunnar. Hann sé nú tilbúinn til að koma upp í brúnna.

Arn­ar Þór tilkynnti í gær um framboð sitt í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins. Ekki eru dæmi um sambærilega þátttöku dómara í stjórnmálastarfi í seinni tíð en Gunnar Thoroddsen, prófessor í lögum, sagði af sér dómaraembætti aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðismanna árið 1970.

Arnar Þór var gestur í Silfrinu í morgun á RÚV þar sem hann fór yfir ákvörðun sína um að gefa kost á sér í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins. Aðspurður hvort það væri eðlilegt að héraðsdómari færi út á vettvang stjórnmálanna, sagði Arnar að stjórnarskráin gerði ráð fyrir því að hann væri kjörgengur líkt og aðrir borgarar landsins.

„Það eru þekkt dæmi um það frá öðrum löndum að menn sem hafa verið dómarastarfi fari á út á vettvang stjórnmálanna. Við búum í frjálsu samfélagi og hver maður má leita hamingjunnar á sínum forsendum,“ sagði Arnar Þór.

Mun ekkert endilega fylgja fordæmi Gunnars Thoroddsen

Ekki er víst hvort Arnar Þór fylgi fordæmi Gunnars Thoroddsen um að segja af sér dómaraembætti, og það sé vegna álags í dómskerfinu.

„Þarna vegast á sjónarmið. Ég ræddi við starfandi dómstjóra í gær og og staðreyndin er þessi að það er mikið álag í dómskerfinu og munar um hvern mann sem hverfur af vettvangi til annarra starfa. Þannig að það er ekkert endilega vilji til þess innan míns vinnustaðar eða á þeim vettvangi, að ég hverfi,“ útskýrði hann og bætti við að hann ætti enn eftir að afgreiða nokkur mál og velti upp spurningum um hvort hann myndi einfaldlega fá leyfi til að stimpla sig út. Hann væri þó tilbúinn að ljúka við sín mál fram að réttarhléi og sagði sjálfsagt að snúa aftur til starfa nái hann ekki kjöri.

Í samtali við Fréttablaðið í dag staðfestir Arnar Þór að hann ætli að halda því opnu hvort hann fari í leyfi og muni ræða málin við lögmenn og aðra aðila sem koma að málunum.

„Við erum auðvitað bara smáþjóð og það er auðvitað allt í lagi að við ræðum það hvert viljum við beina þessum málum.“

Telur þrengt að tjáningarfrelsi

Arnar Þór hefur skrifað mikið um þjóðfélagsmál, ekki síst um Evrópumál og vakti mikla athygli fyrir einarða afstöðu sína gegn þriðja orkupakkanum. Í spjalli í Silfrinu í morgun sagðist hann hafa í vaxandi mæli haft áhyggjur af þróun mála hér á landi, þá sérstaklega hvernig þrengt hefur verið, að hans mati, að borgaralegum réttindum og þar með talið tjáningarfrelsi.

„Ég hef notað orðið gervi frjálslyndi þegar fólk, undir fána frjálslyndis, vill meina öðrum að hafa skoðun, meina öðrum að tjá sig, meina af öðrum að taka þátt í félagsstarfi, eða vera bara það sem hann er sjálfur,“ sagði Arnar Þór.

Vék þá málinu að EES samningnum, sem Arnar Þór telur brjóta í bága við stjórnarskrána og þrengi fullmikið að fullveldi Íslands.

„Ísland er heimili okkar og okkur þykir væntanlega öllum vænt um Ísland og viljum vernda auðlindir þess og náttúru og menningu og svo framvegis. Þannig að það getur ekki verið svo viðkvæmt að ræða þessi mál og við viljum verja auðlindir landsins og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. Við bjóðum að sjálfsögðu þá velkomna sem hingað vilja koma og búa og taka þátt í að byggja þetta upp með okkur.“

Um innflytjendamál sagði Arnar eðlilegt að fá að heyra öll sjónarmið í heilbrigðu lýðræði, svo framarlega sem þau eru tempruð og ekki sett fram af illvilja.

„Við erum auðvitað bara smáþjóð og það er auðvitað allt í lagi að við ræðum það hvert viljum við beina þessum málum, hversu mörgum við getum tekið við, hvernig við ætlum að hátta aðlögun og hvernig við viljum nýta þá þekkingu sem allt þetta góða fólk kemur með til landsins.“

Arnar Þór hefur einnig verið hávær í umræðunni um vald sóttvarnarlæknis, sem hann telur ekki vera tempruð. Hann hefur kallað eftir aukinni aðkomu Alþingis og vísaði til norskra laga þar sem gert er ráð fyrir því að umræða fari fram í þinginu.