Stjórn Geðhjálpar hefur mælst til þess að tveir stjórnarmenn Landspítalans verði útnefndir af notendum þjónustunnar, það er sjúklingasamtökum. Sambærileg tilmæli hafa samtökin MND á Íslandi sent heilbrigðisráðherra eins og Fréttablaðið greindi frá fyrr í mánuðinum.

Frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um sjö manna stjórn Landspítalans er nú í samráðsferli.

„Áður fyrr þurfti fólk að beygja sig og bugta fyrir þeim sem maður þurfti að leita til en á 21. öldinni kallar fólk eftir þjónustu,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

„Við teljum að til þess að heilbrigðisþjónusta geti verið sem best þurfi raddir notendanna að heyrast og hafa vægi.“

Grímur bendir á að notendur sjái heilbrigðisþjónustu með öðrum gleraugum en veitendurnir. Nefnir hann dæmi af yfirlækni á sjúkrahúsi í bænum Glostrup, í útjaðri Kaupmannahafnar.

„Hann fékk hjartaáfall og lagðist inn á deildina sína. Þegar hann var búinn að fara þar í gegn breytti hann öllu,“ segir Grímur.

Dregur hann ekki úr vægi þess að til dæmis starfsfólk eigi að hafa fulltrúa í stjórn líka. En samkvæmt frumvarpinu mun starfsfólk hafa tvo áheyrnarfulltrúa.

Hvað geðheilbrigðisþjónustu varðar, segir Grímur einstaklega mikilvægt að notendur komi að, í ljósi þvingana og nauðungar sem hefur verið beitt. Ekki aðeins í stjórn, heldur til starfa við að veita þjónustuna.